Færsluflokkur: Bloggar

Kafli 6 - Sunnudagar.

 

Sunnudagsmorgnar geta verið margslungnir. Ég annað hvort elska þá eða elska þá ekki. Hefðbundinn sunnudagsmorgun í mínu lífi byrjar stundum kl 7:30 við barnakvak. Allt eftir því hvernig forleikurinn var að þessum morgni, þá ráðast viðbrögðin við kvakinu. Hafi ég sofnað snemma, átt kyrrlátt kvöld, þá hljómar kvakið eins og söngur í mínum eyrum. Blessuð börnin vöknuð og vilja óskipta athygli og tíma til að skoða heiminn, tíma til að skríða upp í rúm, toga í hárið á manni og á ákveðnu aldurskeiði, skíta á sig. Allt er þetta eðlilegt og að öllu jöfnu ætti fólk að taka þessu með stóískri ró, mæta örlögum þessum með bros á vör. Þetta er jú hringrás lífsins.

Í 50% tilfella gengur þetta upp og dagurinn þróast úr rúminu, upp á aðra hæð, þar sem morgunmatur, bókalestur, kaffidrykkja og plan dagsins er sett upp. Öllu stýrt af konunni og börnunum. Ég fylgi með, vanur að láta teyma mig um helgar. Sammála síðasta ræðumanni. Tilbúinn að fara í Kringluna, tilbúinn að fara með drengnum á teiknimynd, tilbúinn að fara í lambalæri til tengdó. Ég er tilbúinn í allt, enda líður mér vel - þetta er þannig sunnudagur.

Hin týpan af sunnudegi er talsvert frábrugðin. Þá vakna ég við öskrin í börnunum, óþolandi krakkar sem eru ekkert nema frekjan og yfirgangurinn. Ekki bætir svo úr skák þegar konan tekur þeirra málstað.

"Svona drífðu þig á lappir maður, ég er að fara út að hlaupa, þú þarft að gefa börnunum að borða."

 

Hausverkur, ringulreið í kollinum. Reyni að rifja upp við hvern ég var að spjalla á Facebook, rétt áður en ég slangraði niður og upp í rúm. Man ekkert. Krakkarnir garga á mat, skíta á sig, hella niður mjólkinni, meira segja fuglasöngurinn úti er pirrandi. Helvítis fuglagarg.

Ég næ þó aftur áttum þegar konan kemur heim úr hlaupunum. Get hlammað mér í sófann. Er nokkuð snöggur að reikna út að ég sé líklega með flensu, alla vega eitthvað slæmur í maganum, enda pest að ganga. Þegar aumingja konan stingur síðan upp á því að við ættum að renna upp í sveit að heimsækja tengdó, þá fallast mér hendur. Það er of mikið. Langar frekar að liggja í sófanum, vorkenna sjálfum mér og bíða eftir því að Aston Villa - Everton byrji í enska boltanum. Leikur sem skiptir engu máli. Öll plön byggjast í kringum sófann og sjónvarpsefnið. Í bölvuðu klúðri lofa ég syninum að fara með honum í bíó. Ég kvíði því mikið. Sýningin hefst kl.14.

Þá man ég. Ég á tvo bjóra í kæliskápnum, niðri í þvottahúsi. Ég fer í sturtu, kippi einum með og þamba hann í sturtunni. Þetta er miklu  betra. Það leggst vel í mig að fara í bíó með drengnum.

Ég legg til að við eldum lambalæri í kvöld og bjóðum mömmu í mat. Þetta verður góður sunnudagur. Krunkið í krummanum er vinalegt. Skyndilega man ég við hvern ég var að tala á Facebook, Þorstein Hlífar, formann sjálfstæðisfélagsins í bænum. Ég hafði samþykkt að vera með á listanum fyrir sveitastjórnarkosningar í vor. Já hví ekki það ?

 

Þremur klukkutímum seinna, eftir bíóið, er ég sofnaður í sófanum. Drengurinn farinn að leika við vin sinn. Konan upp í sveit hjá tengdó. Ég vakna, illa haldinn. Nenni ekki að fá mömmu í mat. Hættur við að fara í framboð. Mér er aftur illt í hausnum og fuglarnir farnir að pirra mig með þessu eilífa kvaki. Djöfuls sunnudagur. Þá man ég að ég á einn bjór eftir í kæliskápnum niðri.

 

Ég verð að viðurkenna að ég kann betur við sunnudaga þar sem líðanin hringsnýst ekki í takt við fjölda þeirra bjóra sem eru til á heimilinu. Best er að vita ekki af þeim, þurfa ekki að hugsa um þá. Það eru góðir sunnudagar. 

Meira kjöt á beinin, takk.

Sagt er að þolinmæði þrautir vinni allar. Að sama skapi er líka til orðatiltæki sem hljóðar svo "Góðir hlutir gerast hægt"  Í báðum tilfellum er um mikla speki að ræða og í spekinni leynist sannleikskorn. Ég velti því fyrir mér í beinu framhaldi, hvort að Arsene Wenger, framkvæmdastjóri Arsenal, lifi eftir þessari speki og taki hana jafnframt svo alvarlega að hann vilji bara alls ekki að hlutirnir gerist hraðar.

Liðið er fullt af tekniskum strákum sem kunna fótbolta, en líkamlegum styrk er ábótavant. Ég hef margoft hringt í Wenger og bent honum á þessa staðreynd. Bent honum góðfúslega á að leikmenn hans vanti meira kjöt á beinin. Hann hefur hins vegar aldrei svarað símtölum mínum og þess vegna hefur samtal mitt við hann einungis verið í gegnum sjónvarpsskjáinn, í formi blótsyrða og athugasemda í ábendingartón.

Er ekki kominn tími á það að pjakkarnir hans Wengers, girði sig í brók og sýni umheiminum að þeir geti unnið góðu liðin líka. Það er ekki nóg að spila áferðafallegan fótbolta og fá klapp á bakið fyrir það. Við áhangendur og stuðningsmenn liðsins erum orðnir langþreyttir eftir titli, en til þess að vinna titla þá þarf að leggja góðu liðin, lið eins og Man Utd. 

Í kvöld er enn ein prófraunin á Wenger og strákana hans. Munu þeir standast álagið og sýna að þeir eigi erindi uppi á toppnum?

 

 


mbl.is „Sigur myndi senda skýr skilaboð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegtollar ríkisins, góðan dag. Get ég aðstoðað?

- Góðan dag, er þetta hjá vegtollum ríkisins ?

- Já það passar.  Get ég aðstoðað ?

- Já hvað kostar að keyra á Selfoss, eða austur í Grímsnes?

- Það er tilboð í dag 500 krónur fram og til baka.

- En á Siglufjörð?

- Það er auðvitað frítt þangað.Allar vegaframkvæmdir sem heita göng eru í boði ríkisins, og sérstaklega þær framkvæmdir sem þingmenn kjördæmisins hafa náð að kreista í gegn, fyrir kjósendur sína. Þannig tryggjum við að gert sé upp á milli kjördæma og fólks, algjörlega háð búsetu þeirra. Var það eitthvað fleira?

- Nei, ég fæ skelli mér bara norður, úr því það er frítt. Sleppi því bara að fara að fara í bústaðinn. Ég tjalda bara á Siglufirði.


mbl.is Mótmælir vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli 5 - Eplakakan hennar Ömmu

Eplakakan hennar Ömmu Nínu

 

Talandi um hugdettur. Jólin 1983, þá tólf ára gamall. Ennþá var ég algjört barn, þó svo ein og ein ranghugmynd um hitt kynið væru farnar að þvælast fyrir í höfði mínu. Amma Nína og Afi Símon, móðurforeldar mínir, höfðu það fyrir sið að bjóða börnum sínum og barnabörnum í hangikjöt á Jóladag. Þá var mikið um dýrðir, börn þeirra og barnabörn öll samankomin í stóra fína húsinu sem afi og amma byggðu fyrir sparifé sitt, eins og gert var í gamla daga, engin lán, bara peningar og góð aðstoð vina og ættingja.

 

 Frændfólk mitt í móðurætt skiptist í tvo flokka, venjulegi hlutinn og síðan athyglissjúki hlutinn. Venjulegi hluti fólksins reynir að halda uppi eðlilegum samræðum á meðan athyglissjúki hlutinn talar svo mikið og lætur hátt að venjulega fólkið verður annað hvort að öskra yfir hina eða draga sig til hlés. Ég tilheyri athyglissjúka hlutanum. Það er nú reyndar svo í seinni tíð að ég hef aðeins gefið eftir, finnst bara gott að borða og skoða allt fólkið, hlusta á það segja frá sjálfum sér og sínum. Fram að 30 ára aldri lék þó engin vafi á því að ég kunni betur við að tala en hlusta.

 

Aftur að jólunum 1983. Ég og Dagbjartur frændi minn sem er tveimur árum eldri en ég og líklega tveimur höfðum hærri , lékum okkur gjarnan saman í jólaboðum. Amma og Afi bjuggu, eins og áður sagði, í  stóru og fínu húsi, sem taldi þrjár hæðir auk kjallara. Í Kjallaranum var stórt búr. Þar geymdi amma stundum kökur.

Þessi jól var hangikjöt á borðum og í eftirrétt var eplakaka með rjóma. Eplakaka þessi var ávallt og er enn, þegar hún er framreidd, mjúk og góð.  Í hana er alltaf sett ein mandla og eins og tíðkast á mörgum íslenskum heimilum eru veitt verðlaun til handa þeim sem fær möndluna í sína skál. Mig hafði lengi langað í möndluna en líklega aldrei meira en jólin 1983.

Ég bað Dagbjart frænda minn að fylgja mér niður í kjallara til að skoða eplakökuna. Ætlunin var að athuga hvort að amma hafi skilið eftir einhver ummerki um hvar hún lét möndluna góðu. Við gáðum vel en engin ummerki að sjá. Kakan var vel varin af rjóma og súkkulaðispæni. En þar sem við störðum á kökuna fékk ég hugmynd.

„Bjartur, hlauptu upp í eldhús og finndu möndlupokann hennar Ömmu.“

„Af hverju,“ spurði Bjartur.

Ég svaraði engu, en bað hann að flýta sér, tíminn væri naumur.

Hangikjötið rann ljúflega niður. Malt og appelsín með. Tveir snáðar gátu samt varla beðið eftir eplakökunni og ýttu fast á eftir ömmu sinni að bera fram kökuna.

„Allt hefur sinn tíma strákar mínir,“ svaraði amma.

„ Fáið ykkur meira hangikjöt, og Gummi minn þú verður líka að borða kartöflur eins og hinir.“

 

En svo kom að því að kakan var borin fram. Að vanda fengu sér allir vel á diskinn. Ég horfði yfir stofuna, stóru fínu stássstofuna hennar ömmu Nínu og afa Símons. Þarna sat afi í stóra kóngastólnum sínum. Stóllinn var sérinnfluttur frá Danmörku eins og flest þeirra stofustáss. Afi át sína köku af yfirvegun. Afi gerði allt af yfirvegun. Þarna var Hrafn bróðir mömmu og Sæunn konan hans, sem er reyndar systir pabba. Dætur þeirra eru tengdar mér í allar áttir, ég get ekkert farið á mannfagnaði án þess að Hrafn og Sæunn og þeirra dætur séu þar. Hrafn át rólega en Sæunn át eins og hún væri að stelast, laumaði bitunum upp í sig. Ég sá líka hvar Ásgeir frændi minn hakkaði í sig kökuna, enda mikill sælkeri líkt og Þorbjörg systir hans sem át líka hratt. Ég var búinn að finna út að þeir sem tala mest borða hraðast. Mamma sat og borðaði hægt. Barnabörnin átu hver með sínu nefi, enda á misjöfnum aldri.

„Ég er með möndluna“, sagði ég hróðugur og veifaði möndlunni minni.

Það varð uppi fótur og fit í stássstofunni. Afi gamli, leit upp og sagði ekkert. Tobba frænka brást ókvæða við og sagði það vera skrýtið því að hún væri líka með möndluna. Þá fékk Ásgeir frændi eitt af sínum frægu hlátursköstum en náði að stynja upp úr sér á milli hláturrokanna að hann væri líka með möndluna og það tvær.

Til að fullkomna vitleysuna þá fór Guðrún, dóttir Hrafns og Sæunnar að gráta. Hún var líka með möndlu. Guðrúnu varð hins vegar ekki meint af grátinum, starfar í dag sem prestur þjóðkirkjunnar, þar sem hún talar mikið og hátt. Afi Símon átti lokaorðið.

„Ég er líka með möndlu.“

Ég fann hvernig allra augu beindust að mér. Ég sagði ekkert. Dagbjartur frændi var ekki eins sterkur á svellinu.

„Þetta var bara smá grín“, sagði hann.

„Við settum nokkrar möndlur í kökuna.“ bætti Dagbjartur við og var skömmustulegur, enda kannski ástæða til.

Ég þagði.

 

Mamma leit á mig hvössum augum, mér sýndist pabbi glotta. Ásgeir frændi var um það bil að míga í brækurnar af hlátri. Ömmu var alls ekki skemmt.

Mér lék mest forvitni að vita hver fengi möndlugjöfina. Þótti líklegast að Ásgeir fengi hana því að hann fékk tvær.

Afi og amma fóru fram í eldhús. Eftir nokkuð snörp fundarhöld varð úr að þýsk vinnukona, sem vann á laxeldisstöð sem Ásgeir frændi átti, fengi möndlugjöfina. Þetta þóttu makleg málagjöld.

Það var ekki fyrr en árið 1992 sem ég fékk möndluna, þá 21 árs gamall. Sagan er rifjuð upp um hver einustu jól, og alltaf finnst mér þetta aðeins sniðugt.


Að stela og ekki stela...

Þegar ég var ungur maður, svona rétt liðlega 11.ára gamall, þá fékk ég svipaða hugmynd og þessir jólasveinar sem brutust inn til fólks, í þeim tilgangi að ræna og rupla, sér til fjárföflunnar. Ég, líkt og þeir, framdi glæp minn á Selfossi, bæ sem borgarfólk kallar orðið Árborg, sem er synd því hann heitir Selfoss en það er önnur saga.

Minn tilgangur var kannski ekki alveg sá sami og verklagið allt annað og vingjarnlegra. Ég stal sælgæti úr skóm frá krökkum, jafnöldrum mínum (sjá sögu úr færslu frá því í gær 11.des.)

Hverju sem mínum glæpum líður, þá þykir mér miður að vita til þess að hugmyndaauðgi þeirra sem vilja bæta fjárhag sinn nú til dags sé ekki meiri en raun ber vitni.

Ég er með tillögu fyrir framtíðarglæpamenn þessa lands. Lærið viðskiptafræði og fáið ykkur vinnu í banka. Lánið sjálfum ykkur peninga án ábyrgðar, gangið samt hart fram þegar þið rukkið annað fólk og krefjist þess að þau afhendi öll sín veraldlegu verðmæti til að standa í skilum við lánin sem þið ráðlögðuð þeim að taka hjá bönkunum, sömu lán og þið lánuðuð sjálfum ykkur ábyrgðalaust.

Ekki brjótast inn hjá fólki og stela sjónvörpum til að geta keypt ykkur eiturlyf og annað sem ykkur finnst gaman að innbyrða og teljið nauðsynlegt til að auka á vellíðan ykkar. Lærið frekar viðskiptafæði og fáið ykkur vinnu í banka, það er miklu einfaldara og þá er heldur ekki löggan alltaf á hælum ykkar.

Já og svei ykkur, sem réðust inn á heimili fólks, vopnaðir hnífum. Þið eruð kjánar, eins og allir glæpamenn.


mbl.is Vopnað rán á Selfossi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli 4. Að fá í skóinn.

Að fá í skóinn

 

Jólin hafa alltaf skipað mikinn sess hjá mér. Gerðu það sérstaklega þegar ég var barn, kannski vegna þess að ég er fæddur 17.júní og afmælið átti það til að fara fyrir ofan garð og neðan í öllum fagnaðarlátunum. Ég spenntist allur upp í byrjun desember. Geri það reyndar enn.

Það er litlum ólátabelg ekki hollt að spennast upp. Spennan þarf að leita útrásar, og í þá daga voru engir tölvuleikir og ekki hægt að spila fótbolta í snjónum. Þá voru góð ráð dýr. Ég fékk hugmynd. Ég veit ekki alveg hvað það var sem hljóp í hausinn á mér þegar ég fékk þessa hugdettu.

Mér datt  í hug að sniðugt væri að stilla vekjaraklukkuna á 04:00 (um nótt) þá sömu nótt og fyrsti jólasveinninn kom í bæinn, 13 dögum fyrir jól. Tilgangur þessa óvænta áhuga míns á því að vakna snemma var hins vegar ekki í anda hinnar heilögu jólahátíðar.

 

Klukkan hringdi eins og til stóð. Ég vaknaði spenntur og klæddi mig upp, læddist út í nóttina, 11 ára gamall. Ég tók stefnuna beint á hús nágranna minna, hugsaði mér gott til glóðarinnar, því að þar bjuggu tvíburar, stelpur, voru ágætar vinkonur mínar, stelpur sem ég lék mér við á daginn, en það var bara þegar enginn sá til, það þótti ekki fínt á þessum aldri að leika við stelpur. Það átti eftir að breytast.

 Ég læddist aftur fyrir hús, opnaði upp á gátt hálfluktan gluggann á herbergi systranna og teygði mig inn. Þeirri vitleysu hafði nefnilega skotið niður í hausinn á mér, 11 ára barninu, að vakna um miðja nótt og ræna góðgæti úr skónum frá börnunum í hverfinu.

 

Fengurinn var fínn í þessu fyrsta ráni mínu, tvö Maltakex-súkkulaði. Þetta var frábær byrjun. Í næsta húsi bjó vinur minn, Marvin, ég lét gluggann hans vera en stal úr glugga Braga bróður hans. Þar var hubba bubba tyggjópakki, rauður.

Áður en yfir lauk hafði ég náð ránsfeng úr 10 húsum í grenndinni. Kl. 05:00 kom ég aftur heim og lagðist til hvílu. Í skúfunni minni á náttborðinu voru ósköpin öll af sælgæti.

 

Svona liðu næstu tvær nætur, ég fór um hverfið ránshendi, eins og refur. Ég var myrkfælinn sem barn, en ekki þessar nætur. Ég gleymdi allri hræðslu. Ég lagðist spenntur til hvílu á kvöldin, man að foreldrum mínum þótti þetta mjög einkennilegt. Hljómur vekjaraklukkunnar var í mínum eyrum, þessar desembernætur, ægifagur. Sælgætið hrannaðist upp.

 Á fjórða degi féll mikill snjór, og það snjóaði fram eftir kvöldi. Snjórinn var enn að falla þegar mannanna börn lögðust til hvílu. Ég var á vaktinni, búinn að ákveða að gera næstu árás á glugga skólabróður míns, Magnúsar Tuma, ég hafði nefnilega séð mömmu hans í Kaupfélaginu fyrr um daginn og hún var að kaupa töluvert magn af Prins Póló. Ég gat mér til um að pólska kexið yrði á boðstólum í skónum á því góða heimili.

Tumi átti heima 300 metra frá mínu húsi og á milli húsanna var opið svæði. Ég ákvað athafna mig hratt. Þetta yrði eina húsið sem yrði rænt þetta kvöldið.

 

Á hverjum morgni, þegar ég var búinn að troða mig út af sælgæti þá breyttust plönin, ég var hættur að stela. Þegar nóttin lagðist yfir, í svörtum sparifötum sínum, þá fór hugurinn að sveima, ranghugmyndir að fæðast. Ég varð gráðugur. Mig þyrsti í spennu og tilbreytingu. Nóttin byrjaði snemma að afvegaleiða mig. Ef ég bara vissi þá, allt sem ég veit nú, þá hefði ég aldrei látið undan þessum ranghugmyndum. Látið þær líða hjá, en þá væru líklega færri sögur hægt að segja.  Aftur að 11 ára stráklingi á ferðalagi um hverfið sitt, í þorpinu, um nótt.

 Ég hljóp sem fætur toguðu yfir til Tuma. Viti menn, í gluggakistunni sat stór skór af Puffins gerð. Skórinn var líklega frá föður hans en hann heitir Oddur og átti á þeim tíma Skóbúðina í plássinu. Í Puffins skónum var Prins Póló kex í gylltum álpappír. Ég tók kexið, opnaði það og át heimleiðinni. Sofnaði sæll þá nótt. Fékk engan móral, leið vel.

 

Adam var ekki lengi í paradís. Ég, refurinn, hafði ekki gáð að mér. Á Svanavegi 5, heima hjá Tuma, var mikill grátur um morguninn. Pilturinn, sem var og er enn mikill sælkeri, kvartaði sáran í föður sínum. Jólasveinninn hafði gleymt að gefa honum í skóinn.

Oddur, sem er snjall kall, vissi að það gæti nú tæplega staðist. Hann leit út um gluggann og sá þar dularfull spor í snjónum. Sporin lágu rakleitt að æskuheimili mínu, hornhúsi. Heimili þeirra sómahjóna sem foreldrar mínir eru.

Sporin sem í snjónum voru, virtust þó vera eftir hvorugt þeirra. Líktist meira sporum eftir barn. Þeirra eina barn, ég, lá sterklega undir grun.

Seinna þann sama dag var ég fundinn sekur um þjófnað. Fréttirnar um þjófinn fóru eins og eldur um sinu um hverfið. Áður en margir dagar liðu var ég fundinn sekur um fjölmarga þjófnaði, alla af sama meiði, foreldrum mínum til mikillar skammar. Ég þóttist skammast mín. Gerði það ekki. Mér fannst þetta afskaplega sniðugt og skemmtilegt, bauðst meira segja til að skila hluta af ránsfengnum.

 

Ég frétti það svo löngu síðar að uppátækin hafi þótt sniðug. Þóttu bera vott um hugmyndaauðgi. Foreldrar fórnarlamba minna fljót að fyrirgefa mér og alltaf þegar á þetta var minnst fékk ég sömu spurninguna.

 

            Hvernig datt þér þetta í hug ?


Þegar ég ætlaði á menningarnótt en hætti við...

 Í sumamennignarnott.jpgr ætlaði ég á menningarnótt í Reykjavík, vera maður á meðal manna, en hætti við. Þorði ekki yfir heiðina.

Á menningarnótt í borginni vappar fólk um og kinkar kolli hvert til annars. Niðrí bæ sameinast úthverfaplebbarnir og miðbæjarrotturnar, allir eru vinir. Síðan mætir þangað líka fólk „utan af landi“ þetta fólk má þekkja greinilega úr fjöldanum, það horfir flóttalega í kringum sig, er eins og antilópur á sléttum Afríku, skíthræddar antilópur sem vita aldrei hvenær á þær verður ráðist.

Fólkið „utan af landi“ hrekkur í kút þegar fyrsti flugeldurinn springur, á meðan miðbæjarrottan nennir ekki að pæla í flugeldasýningunni, er of upptekin við að laga nýju rútubílaframrúðu-gleraugun, sem er þeirra nýja vörumerki. Úthverfaplebbarnir sitja svo á Arnarhóli, með Egils-Gull í hendinni og bera sig vel. Þeir fara niðrí bæ einu sinni á ári, á menningarnótt. Sumir þeirra eru reyndar farnir að kíkja á Gay-pride, en það er bara svona smá „djók“ hjá þeim.

Ég ætlaði sem sagt að fara á menningarnótt en hætti við og fór á blómstrandi daga í Hveragerði. Ætlaði að sjá Ingó og vonandi einhverja aðra apa í Eden.  Í Eden var margt um apa. Apalegastur var maður á miðjum aldri sem sat inni í gróðurhúsi, ofan á gömlum kókflöskukassa og át banana. Ég ætlaði að spjalla lítillega við hann, en þá svaraði hann mér á pólsku. Úr vitum hans lagði megna áfengislykt og trúið mér, hún var ný og fersk, ekki gömul frá því deginum áður. Pólverjar eru margir hverjir óhræddir við að vera fullir á Sunnudögum. Tunglið var líka í ruglinu, því þegar ég fór að sofa um kvöldið þá var það líka fullt, eins og Pólverjinn.

Ég ætla pottþétt á menningarnótt á næsta ári.


Hemmi Gunn á afmæli í dag.

Í morgun 9.desember, á afmælidegi móður minnar og Hemma Gunn, birti ég á "bloggi" mínu, fyrstu kaflana í skáldsögunni Trúður-metsölubók. Kaflarnir heita Forleikur að bók og Helvítið hann Hermann Grutzen.  (sjá færslu hér að neðan) Formála bókarinnar er síðan að finna í færslu frá því gær.

Þetta er gert til gamans og vonandi hafa einhverjir gaman að lestrinum, og geta þá bent á síðuna til handa þeim sem þeir telja að vilji lesa um ævintýri rithöfundarins, Guðmundar Þórs.

Á næstu dögum og vikum mun bókin birtast, smám saman á blogginu mínu. 

Ég hef oftsinnis verið spurður að því hvort um raunveruleika sé að ræða í skrifum mínum. Ég svara því til að raunveruleikinn sé oft merkilegri en skáldskapurinn. Að því sögðu vil ég nefna það í beinu framhaldi að allt sem í bókinni gerist, hefur gerst í raunveruleikanum.

Til að fá skáldlega fjarlægð á raunveruleikann er oft gott að setja hann í umbúðir. Í þessu tilfelli eru umbúðirnar "Skáldsaga" sem í fyrsta hluta þríleiksins gerist í þorpi á Suðurlandi.

 

 

 

 


Skemmtileg tilraun....

bokin_kapa_1047209.jpgÉg hef ákveðið að gera tilraun. Tilraun sem ég held að sé skemmtileg. Þannig er mál með vexti að ég skrifaði og gaf út í haust bók sem heitir TRÚÐUR-Metsölubók. Bók þessi hefur fengið góða dóma og viðbrögð fólks sem bókina hafa lesið hafa verið jákvæð og hvetjandi.

 Bókin fór aldrei í dreifingu á landsvísu, en hefur fengist hjá höfundi, og í Sunnlenska Bókakaffinu og Bónus á Selfossi. Einnig hefur bókinni verið dreift með pósti í gegnum sölu,- og kynningarvefinn www.metsolubok.is 

Bókin er enn fáanleg á ofangreindum stöðum en allar líkur eru þó á því, miðað við gang sölunnar, að upplagið klárist fyrir jól.

Ég hef ákveðið að gera smá tilraun, birta bókina í skömmtum á blogginu mínu. Ég ætla að birta á degi hverjum, nokkrar blaðsíður, eftir því sem efnistök leyfa. Gefa fólki tækifæri á að lesa bókina, rafrænt. 

Það er ekki endilega af góðmennsku einni saman sem ég geri þetta, því birtingin er liður í að kynna næstu bók, sem er hluti af þríleik um aðalkarakter bókarinnar, Guðmund Þór. Sú bók kemur út 1.apríl 2011 og verður fáanleg í öllum helstu bókaverslunum landsins og einnig hjá höfundi og útgefanda.

Ég vona að fólk hafi gaman að þessu uppátæki og fylgist með framgangi sögunnar hér á blogginu og kannski láti vita, ef því líkar við efnið, svo að fleiri megi njóta.

 

 Að þessu sögðu ber ég fyrst á borð formála höfundar.(Fyrsti kafli birtist svo á morgun 8.des)

 

Formáli Höfundar

Það er ekki til vitnis um gott sjálfstraust að skrifa formála að bókum sínum. Mig minnir að það hafi verið Flosi Ólafsson sem hafi skrifað í formála að bókinni sinni góðu ”Í Kvosinni” að formáli væri eins og fyrirfram útskýring á góðum brandara. Hann segir jafnframt í sínum formála að það séu einungis vondir rithöfundar sem útskýri bækur sínar í formálanum. Að þessu sögðu langar mig aðeins að útskýra bókina.

Bók þessi er skáldsaga. Guðmundur Þór, aðalpersóna bókarinnar er tilbúningur eins og nær allar persónur og leikendur þessa skáldverks. Guðmundur Þór leiðir okkur fram og til baka um æviskeið sitt. Hann rifjar upp minningarbrot úr æsku sinni og gefur okkur innsýn í líf sitt í dag. Ég get fúslega viðurkennt það að mér þykir vænt um Guðmund Þór. Leit hans að tilgangi lífsins er eitthvað sem er okkur mannfólkinu eðlislægt. Það er samt eitt atriði sem pirrar mig dálítið við hann Guðmund. Það er hversu upptekinn hann er af áfengi en það er hans böl ekki mitt.

 

Njótið vel

Sigurður Fannar Guðmundsson

 


Fé á fjalli

 

Fé er fallvalt og kannski ekki mjög skáldlegt að skrifa ljóð um peninga. Það er nú samt raunveruleikinn og hvað er skáldlegra en raunveruleikinn sjálfur. Hvað er íslenskara en sauðkindin ?

 

 

Fé á fjalli

 

Hátt ég stend á stalli.
Ég á feikn af fé - á fjalli.

Sauðina mína sendi til fjalla.
sæll í sinni kveð ég þá alla.
Á heiðunum háu þeir vaxa og dafna
í haust mun ég saman þeim safna.
Og þá verður gnægð af kjöti og ull
kosturinn mikill - í kistunni gull.
Landið er gjöfult á göfugum stalli
gott er að eiga fé sitt á fjalli.

Svo leituðu menn að sauðum mínum
síðla sumars á fákum fínum.
En á fjöllum var ekkert fé að sjá
fáeinar gæsir þar flugu hjá.
Á heiðinni háu var hrafnaþing
hoppuðu keikir allt í kring.
og kroppuðu augun úr lambi einu
engu þeir hlífðu - ekki neinu.

Hátt ég stóð - en sté - af stalli.
Ekkert er fé - á fjalli.

 


 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband