Kafli 6 - Sunnudagar.

 

Sunnudagsmorgnar geta verið margslungnir. Ég annað hvort elska þá eða elska þá ekki. Hefðbundinn sunnudagsmorgun í mínu lífi byrjar stundum kl 7:30 við barnakvak. Allt eftir því hvernig forleikurinn var að þessum morgni, þá ráðast viðbrögðin við kvakinu. Hafi ég sofnað snemma, átt kyrrlátt kvöld, þá hljómar kvakið eins og söngur í mínum eyrum. Blessuð börnin vöknuð og vilja óskipta athygli og tíma til að skoða heiminn, tíma til að skríða upp í rúm, toga í hárið á manni og á ákveðnu aldurskeiði, skíta á sig. Allt er þetta eðlilegt og að öllu jöfnu ætti fólk að taka þessu með stóískri ró, mæta örlögum þessum með bros á vör. Þetta er jú hringrás lífsins.

Í 50% tilfella gengur þetta upp og dagurinn þróast úr rúminu, upp á aðra hæð, þar sem morgunmatur, bókalestur, kaffidrykkja og plan dagsins er sett upp. Öllu stýrt af konunni og börnunum. Ég fylgi með, vanur að láta teyma mig um helgar. Sammála síðasta ræðumanni. Tilbúinn að fara í Kringluna, tilbúinn að fara með drengnum á teiknimynd, tilbúinn að fara í lambalæri til tengdó. Ég er tilbúinn í allt, enda líður mér vel - þetta er þannig sunnudagur.

Hin týpan af sunnudegi er talsvert frábrugðin. Þá vakna ég við öskrin í börnunum, óþolandi krakkar sem eru ekkert nema frekjan og yfirgangurinn. Ekki bætir svo úr skák þegar konan tekur þeirra málstað.

"Svona drífðu þig á lappir maður, ég er að fara út að hlaupa, þú þarft að gefa börnunum að borða."

 

Hausverkur, ringulreið í kollinum. Reyni að rifja upp við hvern ég var að spjalla á Facebook, rétt áður en ég slangraði niður og upp í rúm. Man ekkert. Krakkarnir garga á mat, skíta á sig, hella niður mjólkinni, meira segja fuglasöngurinn úti er pirrandi. Helvítis fuglagarg.

Ég næ þó aftur áttum þegar konan kemur heim úr hlaupunum. Get hlammað mér í sófann. Er nokkuð snöggur að reikna út að ég sé líklega með flensu, alla vega eitthvað slæmur í maganum, enda pest að ganga. Þegar aumingja konan stingur síðan upp á því að við ættum að renna upp í sveit að heimsækja tengdó, þá fallast mér hendur. Það er of mikið. Langar frekar að liggja í sófanum, vorkenna sjálfum mér og bíða eftir því að Aston Villa - Everton byrji í enska boltanum. Leikur sem skiptir engu máli. Öll plön byggjast í kringum sófann og sjónvarpsefnið. Í bölvuðu klúðri lofa ég syninum að fara með honum í bíó. Ég kvíði því mikið. Sýningin hefst kl.14.

Þá man ég. Ég á tvo bjóra í kæliskápnum, niðri í þvottahúsi. Ég fer í sturtu, kippi einum með og þamba hann í sturtunni. Þetta er miklu  betra. Það leggst vel í mig að fara í bíó með drengnum.

Ég legg til að við eldum lambalæri í kvöld og bjóðum mömmu í mat. Þetta verður góður sunnudagur. Krunkið í krummanum er vinalegt. Skyndilega man ég við hvern ég var að tala á Facebook, Þorstein Hlífar, formann sjálfstæðisfélagsins í bænum. Ég hafði samþykkt að vera með á listanum fyrir sveitastjórnarkosningar í vor. Já hví ekki það ?

 

Þremur klukkutímum seinna, eftir bíóið, er ég sofnaður í sófanum. Drengurinn farinn að leika við vin sinn. Konan upp í sveit hjá tengdó. Ég vakna, illa haldinn. Nenni ekki að fá mömmu í mat. Hættur við að fara í framboð. Mér er aftur illt í hausnum og fuglarnir farnir að pirra mig með þessu eilífa kvaki. Djöfuls sunnudagur. Þá man ég að ég á einn bjór eftir í kæliskápnum niðri.

 

Ég verð að viðurkenna að ég kann betur við sunnudaga þar sem líðanin hringsnýst ekki í takt við fjölda þeirra bjóra sem eru til á heimilinu. Best er að vita ekki af þeim, þurfa ekki að hugsa um þá. Það eru góðir sunnudagar. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband