Kafli 4. Að fá í skóinn.

Að fá í skóinn

 

Jólin hafa alltaf skipað mikinn sess hjá mér. Gerðu það sérstaklega þegar ég var barn, kannski vegna þess að ég er fæddur 17.júní og afmælið átti það til að fara fyrir ofan garð og neðan í öllum fagnaðarlátunum. Ég spenntist allur upp í byrjun desember. Geri það reyndar enn.

Það er litlum ólátabelg ekki hollt að spennast upp. Spennan þarf að leita útrásar, og í þá daga voru engir tölvuleikir og ekki hægt að spila fótbolta í snjónum. Þá voru góð ráð dýr. Ég fékk hugmynd. Ég veit ekki alveg hvað það var sem hljóp í hausinn á mér þegar ég fékk þessa hugdettu.

Mér datt  í hug að sniðugt væri að stilla vekjaraklukkuna á 04:00 (um nótt) þá sömu nótt og fyrsti jólasveinninn kom í bæinn, 13 dögum fyrir jól. Tilgangur þessa óvænta áhuga míns á því að vakna snemma var hins vegar ekki í anda hinnar heilögu jólahátíðar.

 

Klukkan hringdi eins og til stóð. Ég vaknaði spenntur og klæddi mig upp, læddist út í nóttina, 11 ára gamall. Ég tók stefnuna beint á hús nágranna minna, hugsaði mér gott til glóðarinnar, því að þar bjuggu tvíburar, stelpur, voru ágætar vinkonur mínar, stelpur sem ég lék mér við á daginn, en það var bara þegar enginn sá til, það þótti ekki fínt á þessum aldri að leika við stelpur. Það átti eftir að breytast.

 Ég læddist aftur fyrir hús, opnaði upp á gátt hálfluktan gluggann á herbergi systranna og teygði mig inn. Þeirri vitleysu hafði nefnilega skotið niður í hausinn á mér, 11 ára barninu, að vakna um miðja nótt og ræna góðgæti úr skónum frá börnunum í hverfinu.

 

Fengurinn var fínn í þessu fyrsta ráni mínu, tvö Maltakex-súkkulaði. Þetta var frábær byrjun. Í næsta húsi bjó vinur minn, Marvin, ég lét gluggann hans vera en stal úr glugga Braga bróður hans. Þar var hubba bubba tyggjópakki, rauður.

Áður en yfir lauk hafði ég náð ránsfeng úr 10 húsum í grenndinni. Kl. 05:00 kom ég aftur heim og lagðist til hvílu. Í skúfunni minni á náttborðinu voru ósköpin öll af sælgæti.

 

Svona liðu næstu tvær nætur, ég fór um hverfið ránshendi, eins og refur. Ég var myrkfælinn sem barn, en ekki þessar nætur. Ég gleymdi allri hræðslu. Ég lagðist spenntur til hvílu á kvöldin, man að foreldrum mínum þótti þetta mjög einkennilegt. Hljómur vekjaraklukkunnar var í mínum eyrum, þessar desembernætur, ægifagur. Sælgætið hrannaðist upp.

 Á fjórða degi féll mikill snjór, og það snjóaði fram eftir kvöldi. Snjórinn var enn að falla þegar mannanna börn lögðust til hvílu. Ég var á vaktinni, búinn að ákveða að gera næstu árás á glugga skólabróður míns, Magnúsar Tuma, ég hafði nefnilega séð mömmu hans í Kaupfélaginu fyrr um daginn og hún var að kaupa töluvert magn af Prins Póló. Ég gat mér til um að pólska kexið yrði á boðstólum í skónum á því góða heimili.

Tumi átti heima 300 metra frá mínu húsi og á milli húsanna var opið svæði. Ég ákvað athafna mig hratt. Þetta yrði eina húsið sem yrði rænt þetta kvöldið.

 

Á hverjum morgni, þegar ég var búinn að troða mig út af sælgæti þá breyttust plönin, ég var hættur að stela. Þegar nóttin lagðist yfir, í svörtum sparifötum sínum, þá fór hugurinn að sveima, ranghugmyndir að fæðast. Ég varð gráðugur. Mig þyrsti í spennu og tilbreytingu. Nóttin byrjaði snemma að afvegaleiða mig. Ef ég bara vissi þá, allt sem ég veit nú, þá hefði ég aldrei látið undan þessum ranghugmyndum. Látið þær líða hjá, en þá væru líklega færri sögur hægt að segja.  Aftur að 11 ára stráklingi á ferðalagi um hverfið sitt, í þorpinu, um nótt.

 Ég hljóp sem fætur toguðu yfir til Tuma. Viti menn, í gluggakistunni sat stór skór af Puffins gerð. Skórinn var líklega frá föður hans en hann heitir Oddur og átti á þeim tíma Skóbúðina í plássinu. Í Puffins skónum var Prins Póló kex í gylltum álpappír. Ég tók kexið, opnaði það og át heimleiðinni. Sofnaði sæll þá nótt. Fékk engan móral, leið vel.

 

Adam var ekki lengi í paradís. Ég, refurinn, hafði ekki gáð að mér. Á Svanavegi 5, heima hjá Tuma, var mikill grátur um morguninn. Pilturinn, sem var og er enn mikill sælkeri, kvartaði sáran í föður sínum. Jólasveinninn hafði gleymt að gefa honum í skóinn.

Oddur, sem er snjall kall, vissi að það gæti nú tæplega staðist. Hann leit út um gluggann og sá þar dularfull spor í snjónum. Sporin lágu rakleitt að æskuheimili mínu, hornhúsi. Heimili þeirra sómahjóna sem foreldrar mínir eru.

Sporin sem í snjónum voru, virtust þó vera eftir hvorugt þeirra. Líktist meira sporum eftir barn. Þeirra eina barn, ég, lá sterklega undir grun.

Seinna þann sama dag var ég fundinn sekur um þjófnað. Fréttirnar um þjófinn fóru eins og eldur um sinu um hverfið. Áður en margir dagar liðu var ég fundinn sekur um fjölmarga þjófnaði, alla af sama meiði, foreldrum mínum til mikillar skammar. Ég þóttist skammast mín. Gerði það ekki. Mér fannst þetta afskaplega sniðugt og skemmtilegt, bauðst meira segja til að skila hluta af ránsfengnum.

 

Ég frétti það svo löngu síðar að uppátækin hafi þótt sniðug. Þóttu bera vott um hugmyndaauðgi. Foreldrar fórnarlamba minna fljót að fyrirgefa mér og alltaf þegar á þetta var minnst fékk ég sömu spurninguna.

 

            Hvernig datt þér þetta í hug ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband