Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Vont ef vantar punginn.....

Að gifta sig er gamanmál

gleðistundin þrungin

vont er gumans vandamál

ef vantar á hann punginn


mbl.is Eiginmaðurinn reyndist kona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli 11 - Fermingin (fyrri hluti)

Það er stundum skrýtið hvernig orsakir hafa afleiðingar. Hvernig eitt leiðir af öðru. Hvernig ómerkilegir hlutir verða stundum til þess að tilvera fólks tekur á sig aðra mynd.

Ég fermdist eins og flest önnur börn. Gekk í mína fermingafræðslu til sr. Sigurðar Sigurðarsonar, sem síðar varð vígslubiskup. Sigurður skírði mig og fermdi mig.  Ég hélt hann myndi gifta mig, en svo var ekki. Ég var giftur af tveimur prestum. Annar þeirra heitir Gunnar Þorbjörnsson og er sellóleikari, Gunnar er hjartahlýr, kannski stundum aðeins of kærleiksríkur. Hinn presturinn sem tók þátt í giftingarathöfninni er sr. Guðrún Hrafnsdóttir, Gunna frænka. Hún er skemmtilegur prestur, heldur líflegar ræður og fær fólki til að líða vel í kirkju.

 

Mér fannst ekkert sérstaklega gaman í fermingarfræðslunni, sr. Sigurður, reyndi eflaust sitt besta, það var bara ekki nóg. Mér leið á þessum árum ekkert vel í kirkjunni. Þar var óþægilega mikil ró. Í mér var alltaf einhver fiðringur sem leita þurfti útrásar. Það var bölvaður prakkari í mér.

 

Móðir mín hefur sagt mér að þegar ég var lítill(ungabarn) þá hafi komið á mig undarlegur svipur, rétt áður en ég gerði eitthvað sem mér var bannað. Þegar ég spurði hana hvernig þessi svipur var – þá svaraði hún.

”Sami svipurinn og kom á þig í lestinni í Danmörku, þegar þú varst sex ára og stóðst við hliðina á neyðarbremsunni, nýbúinn að spyrja mig hvað þetta væri. Ég verandi grandalaus, asnaðist til þess að segja þér hvað þetta væri, hefði betur sleppt því. Svo kom á þig þessi undarlegi svipur, sem ég hafði séð á andliti þínu allt frá því þú varst tveggja ára gamall, svipur sem ég hef lært að óttast. Augun pírast, tungan fer upp á efri vöruna, svo gerir þú alltaf það sem maður óttast mest. Manstu þegar þú reifst í bremsuna og okkur var hent út úr lestinni ?”

 

Ég hafði háar hugmyndir um ferminguna, flestar þeirra snéru að því hversu mikla peninga ég myndi fá að gjöf í veislunni. Mamma og pabbi gerðu sitt besta til að benda mér á mikilvægi trúarinnar og sögðu mér margoft að gjafir og peningar væru nú ekki allt. Það þyrftu allir að læra trúarjátninguna, staðfesta trú sina og tryggð í Jesú nafni, svo væri líka alltaf gaman að hitta stórfjölskylduna. Ég held að þau hafi haft rétt fyrir sér.

 

Fermingin gekk vel, ég tuggði brauðið, fékk minn fyrsta vínsopa (í drottins nafni) og hreyfði varirnar þegar hinir krakkarnir fóru með trúarjátninguna.

 Mér tókst með einhverjum óskiljanlegum hætti að læra ekki trúarjátninguna utanbókar. Það sem meira var, sr. Sigurður núverandi vígslubiskup, virtist ekki hafa verið að hlusta þegar hann hlýddi mér yfir. Ég hef oft hugsað af hverju hann var ekki að hlusta ?

 Mjög líkleg skýring er tengsl fjölskyldu minnar við kirkjuna. Amma Nína var guðhrædd kona og vís. Hún var ein aðalsöngstjarnan í kirkjukórnum og mjög virk í kirkjustarfinu. Kannski vildi verðandi vígslubiskup ekki styggja Ömmu með því að kvarta undan trúleysi barnabarnsins. Amma var mezzósópran, þótti snjöll í milliröddun. Gylfi organisti kennir í dag syni mínum söng. Hann hefur miklar mætur á syni mínum. Segir hann af góðu fólki kominn, með góða rödd. Gylfi talar alltaf fallega um ömmu og hennar afkomendur. Gylfi varð mjög glaður þegar Gunna frænka varð prestur. Söngröddin hennar ömmu erfðist þó ekki í alla hennar afkomendur.

Ég byrjaði trúarjátninguna rétt, babblaði svo einhver stikkorð þannig að  játningin myndi hljómaði sannfærandi.

 

Fermingarveislan var haldin í "Knæpunni”. Knæpan var bar. Fyrsti pöbb bæjarins, niðurgrafinn í kjallara Kaupfélagsins.

Ég átti oftsinnis eftir að að koma þangað niður, nokkrum árum síðar.


Helvíti ertu orðin rýr !

- danska krónan : Hvað helvíti ertu orðin rýr!

- íslenska krónan: Já, ég veit en ég tóri samt ennþá.

- danska krónan: Þú hefur rýrnað um 99.5% síðan við kynntumst fyrst og það eitt að þú skulir ennþá vera á lífi er í reynd stórmerkilegt. Eigendur þínir, íslenska þjóðin, hljóta að vera snillingar.

- íslenska krónan: Já, íslenska þjóðin fær bara aldrei nóg af mér, enda eru íslendingar annálaðir fjármálasnillingar, eins og sannast hefur rækilega síðastliðin ár.

 


mbl.is Rýrnun krónunnar 99,95%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að tjóðra kött við þvottanúru

Á Íslandi hefur það alltaf talist nauðsynlegt að vera hluti af hóp. Hjarðeðli íslendinga er mjög ríkjandi og það hefur aldrei þótt fínt að skera sig út úr hópnum, hjörðinni, jafnvel þó svo að það stríði gegn þinni betri vitund.

Forkólfar stjórnarmeirihlutans líta svo á að stjórnaliðar séu ein og sama hjörðin og innan hjarðarinnar skuli vera ein og sama hugmyndin um það hvernig stjórna skuli landinu, það er ekki pláss fyrir sjálfstæðar skoðanir.

Lilja Mósesdóttir hefur sýnt að í henni býr kjarkur og þor. Hún stendur með sínum skoðunum og er ekki í eðli sýnu hjarðdýr. Fyrir það er verið gagnrýna hana og níða úr launsátri.

Það er ámóta gáfulegt og að tjóðra kött við þvottasnúru.


mbl.is Stöðugir níðpóstar um Lilju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tunglið í hvarfi

Gefum okkur að ég sé ljóðskáld. Yrkisefnið sé tunglið og ég hafi asnast til þess, í reynsluleysi að setja orðið tungl sem endaorð í 2. línu og nú vantar mig orð til að loka vísunni og það orð þarf, venjunni samkvæmt að ríma við Tungl.

Hvaða orð gæti það verið?

 

 


mbl.is Tunglmyrkvi sést á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjafjallajökull á Kínversku.

在冰岛山区火灾

Svona er mín þýðing á Eyjafjallajökull, eldfjall á Íslandi, þegar ég er búinn að snara því yfir á hið ylhýra og margslungna tungumál kínversku. Ég viðurkenni reyndar að ég nýtti mér þýðingaforrit mér til hjálpar. Til grundvallar skrifaði ég á ensku "The mountain of fire in south Iceland"

http://www.free-translator.com

 

 


mbl.is Eyjafjallajökull í rússnesku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort er þyngra eitt kiló af gulli eða 1000 grömm af fiðri?

Eldur og olía á einum og sama stað er ávísun á vandræði. Gildir þá einu hvort um er að ræða 200tonn af olíu eins og Ómar Ragnarsson, hæstvirtur fréttamaður og ofurbloggari vill meina að réttara sé að segja frekar en 200.000 lítrar af olíu. Ég spyr:

Hvort er þyngra eitt kíló af gulli eða 1000 grömm af fiðri?


mbl.is 200.000 lítrar af olíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessað Brennivínið.

Það er margt sem misferst í veröldinni. Ég þekkti einu sinni mann, sem var nýbúinn að eignast barn. Hann var ekki ríkur maður en hafði lagt til hliðar pening í þeim tilgangi að kaupa barnavagn fyrir nýfæddan frumburð sinn og þáverandi konu sinnar.  Barnið dafnaði og konan sendi mannin af stað með rútu til Reykjavíkur, snemma morguns á laugardegi, að kaupa barnavegn, fyrir spariféð góða.

Ferðin sóttist seint og konan var orðin óþreyjufull. Okkar maður kom heim með síðustu rútunni úr borginni, með engan barnavagn en var með splunkunýjan Saxófón undir hendinni, gylltan tenórsaxafón sem hann sýndi konu sinni hróðugur og spurði.

- Finnst þér hann ekki flottur? Konan svaraði honum ekki en spurði til baka, í reiðitón

- Ætlar þú, Júlíus, að keyra barnið um göturnar í þessum Saxófón ?

Júlla varð fátt um svör, var búinn að fá sér aðeins í glas. Hafði óvart gleymt erindi sínu á leiðinni í borgina, hann fékk sér nefnilega aðeins brennivín á leiðinni þangað, en ekki mikið, að honum fannst. 

Júlla til varnar þá á hann ennþá Saxófóninn og litla barnið er tannlæknir í Kópavogi.


mbl.is Mislukkuð baðferð í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli 10 - Diego Armando Maradona (seinni hluti)

Sigga er úr sveit undan Eyjafjöllum. Hún er afskaplega góð og hjartahlý manneskja, en hún er trúgjörn og það var auðvelt að plata hana. Að þessu sinni trúði hún því að miðinn væri frá pabba, henni fannst skrýtið að hann skildi leyfa þessa vitleysu, en verandi úr sveit, þá tók hún þeim verkefnum sem að höndum bar, með bros á vör.

Ég settist í stólinn hjá Siggu.

Tveimur klukkutímum síðar var ég með svart krullað hár. Alveg eins og andskotinn í útliti. Ég held að allir sem sáu aðgerðina hafi verið að drepast úr hlátri. Sigga hafði nefnilega hóað í vinkonur sínar áður en aðgerðin hófst. Það var ekki mikið um að vera í hverfinu og þetta var tilvalið skemmtiatriði. Ég var trúðurinn. Ekki í fyrsta og ekki í síðasta sinn.

Í mínum huga var þó engin ástæða til að hlægja. Ég var loksins orðinn eins og Maradona. Lítill, flinkur í fótbolta, með svart krullað hár. Þessar kellingar gátu hlegið. Mér fannst ég flottur.

Ingi frændi var næstum kafnaður úr hlátri þegar hann uppgötvaði, síðar sama dag, að ég væri ekki með hárkollu. Hann þurfti að rífa  fast í hárið á mér, til að fullvissa sig.

“Muhahahahah....Pabbi þinn verður ánægður að sjá þig á morgun.” Hann gat varla hætt að hlægja.

“Það er nefnilega myndataka af stórfjölskyldunni í tilefni af gullbrúðkaupi afa þíns og ömmu, muhahahhaah.”

Ingi frændi sá fyrir sér mömmu og pabba og þeirra eina barn, mig, á fjölskyldumyndinni. Mamma rauðhærð, pabbi með músarlitt, íslenskt hár. Ég á milli þeirra eins og ættleiddur Mexíkani. Inga frænda var mjög skemmt. Hann hafði líklega ekki skemmt sér jafnvel vel síðan hann skeit á “Gulleyjuna” sem pabbi fékk í jólagjöf þegar þeir bræður voru 9 og 11 ára, Ingi verandi yngri bróðirinn og afbrýðissamur yfir bókinni áhugaverðu sem pabbi bannaði honum að skoða.

Ingi tók hana af honum, rauk með hana inn á klósett og skeit á blaðsíðu 22. Lokaði svo bókinni, kom fram og rétti pabba hana. Ingi frændi er samt góður maður.

Hann hýsti mig þessa nótt og fékk í staðinn að vera fyrstur til að sjá svip foreldra minna þegar þau komu að ná í mig daginn eftir. Það þyrfti að vekja meistara Charlie Chaplin upp frá dauðum til að leika þann svip eftir.

 

Ég var með húfu á hópmyndinni af fjölskyldunni. Ef vel er að gáð má sjá djöfullegt glott á Inga frænda á sömu mynd.


Bahamaeyjan Ísland ?

Nú er úti veður vont

voðalegt að heyra

í feisið set ég frosin"front"

fer svo út að keyra


Ekkert væl og ekkert tuð

áfram aldrei beygja

í útvarpinu Veðurguð

vill til hlýrri eyja.


Vinurinn er voða hress

Á Bahama er ekkert stress

Við Ísland nú ég segi bless

(Ekkert meir' að segja.)

 


mbl.is Ekkert ferðaveður á landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband