Kafli 10 - Diego Armando Maradona (seinni hluti)

Sigga er úr sveit undan Eyjafjöllum. Hún er afskaplega góð og hjartahlý manneskja, en hún er trúgjörn og það var auðvelt að plata hana. Að þessu sinni trúði hún því að miðinn væri frá pabba, henni fannst skrýtið að hann skildi leyfa þessa vitleysu, en verandi úr sveit, þá tók hún þeim verkefnum sem að höndum bar, með bros á vör.

Ég settist í stólinn hjá Siggu.

Tveimur klukkutímum síðar var ég með svart krullað hár. Alveg eins og andskotinn í útliti. Ég held að allir sem sáu aðgerðina hafi verið að drepast úr hlátri. Sigga hafði nefnilega hóað í vinkonur sínar áður en aðgerðin hófst. Það var ekki mikið um að vera í hverfinu og þetta var tilvalið skemmtiatriði. Ég var trúðurinn. Ekki í fyrsta og ekki í síðasta sinn.

Í mínum huga var þó engin ástæða til að hlægja. Ég var loksins orðinn eins og Maradona. Lítill, flinkur í fótbolta, með svart krullað hár. Þessar kellingar gátu hlegið. Mér fannst ég flottur.

Ingi frændi var næstum kafnaður úr hlátri þegar hann uppgötvaði, síðar sama dag, að ég væri ekki með hárkollu. Hann þurfti að rífa  fast í hárið á mér, til að fullvissa sig.

“Muhahahahah....Pabbi þinn verður ánægður að sjá þig á morgun.” Hann gat varla hætt að hlægja.

“Það er nefnilega myndataka af stórfjölskyldunni í tilefni af gullbrúðkaupi afa þíns og ömmu, muhahahhaah.”

Ingi frændi sá fyrir sér mömmu og pabba og þeirra eina barn, mig, á fjölskyldumyndinni. Mamma rauðhærð, pabbi með músarlitt, íslenskt hár. Ég á milli þeirra eins og ættleiddur Mexíkani. Inga frænda var mjög skemmt. Hann hafði líklega ekki skemmt sér jafnvel vel síðan hann skeit á “Gulleyjuna” sem pabbi fékk í jólagjöf þegar þeir bræður voru 9 og 11 ára, Ingi verandi yngri bróðirinn og afbrýðissamur yfir bókinni áhugaverðu sem pabbi bannaði honum að skoða.

Ingi tók hana af honum, rauk með hana inn á klósett og skeit á blaðsíðu 22. Lokaði svo bókinni, kom fram og rétti pabba hana. Ingi frændi er samt góður maður.

Hann hýsti mig þessa nótt og fékk í staðinn að vera fyrstur til að sjá svip foreldra minna þegar þau komu að ná í mig daginn eftir. Það þyrfti að vekja meistara Charlie Chaplin upp frá dauðum til að leika þann svip eftir.

 

Ég var með húfu á hópmyndinni af fjölskyldunni. Ef vel er að gáð má sjá djöfullegt glott á Inga frænda á sömu mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband