Óveður er afstætt

Ég keyri yfir Hellisheiðina, til vinnu á degi hverjum. Í morgun kveið ég því að leggja á heiðina. Áróðursmenn Veðurguðanna, lögðu til að það væri ekkert ferðaveður. 

Ég hlustaði á KK á rás 1 og söng hástöfum, keyrði greitt og tók aldrei eftir vonda veðrinu. KK er fínn útvarpsmaður, með rólega og sefandi rödd, ólíkt norðanvindinum sem er hávær og skrækur.

Annars held ég að við íbúar á suðvestur horni landsins, ættum ekki að kvarta. Brosa bara í kampinn þá sjaldan Kári blæs, vitandi að blásturinn gengur yfir.

 


mbl.is Óveður víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli 9 - Diego Armando Maradona (fyrri hluti)

 

Þegar ég var yngri þá var ég mjög upptekinn af fólki sem hafði sérstaka hæfileika. Mér fannst slíkt fólk alveg magnað.  Ég var hrifinn af hvers kyns töfrabrögðum, sjónhverfingum, spilagöldrum. Ég var einnig hrifinn af mönnum sem gátu gert listir. Uppáhaldið mitt var samt Diego Armando Maradona, sá mikli knattspyrnusnillingur. Hann var mitt átrúnaðargoð. Ég þakti veggina á herberginu með myndum af Maradona, ég klippti allt út sem var skrifað um hann í blöðunum. Ég reyndi að gera alla þá takta sem Maradona framkvæmdi. Sumt tókst, annað ekki. Það var ekki fyrr en ég varð eldri sem ég náði sumum takta þessa ágæta knattspyrnusnillings, en þeir taktar voru þó ekki á knattspyrnuvellinum, því miður.

Maradona var með svart hrokkið hár. Ég var með ljóst slétt hár. Við vorum báðir litlir, ég þótti góður í fótbolta, hann var snillingur í fótbolta. Ég vildi verða eins og hann. Þetta var árið 1983, ég var 12 ára.

Mamma Magnúsar Tuma, var kölluð Sigga. Hún var óskaplega góð við okkur strákana. Þangað gátum við farið þegar okkur langaði í kökur og mjólk. Þangað var gott að leita. Hún var heimavinnandi húsmóðir, alltaf með allt strokið og fínt, lagði alúð í að rækta garðinn sinn. Sigga var líka lunkin við að klippa hár. Hún gerði talsvert af því að klippa hárið á strákunum í hverfinu og setja permanett í hárið á mömmum þeirra.

Permanett var ofboðslega vinsælt í þá daga. Á einum klukkutíma gátu töfraefni hárvöruframleiðandans “Tony” breytt sléttu hári í krullað.

Tony, permanett var hægt að fá í þremur styrkleikaflokkum:

1.    Létt – (Light) þá var hárið með léttum liðum, líflegt. Þetta var mjög vinsælt.

2.    Milli – (medium) Krullur, millistórar en þó alls ekki afgerandi. Þetta var fyrir konur með sítt hár.

3.    Strong – (sterkt) Afró krullur – alvöru krullur, eins og á blámönnum úr svörtustu Afríku. Þetta var á boðstólum en sjaldan pantað. Það var helst að þunnhærðar konur fengu sér þetta til að auka á þéttleikann í hárinu.

 

Sigga, mamma Magnúsar Tuma, átti allar týpur af Tony permanetti og hafði talsvert að gera í því að græja slétthærða nágranna sína. Sigga átti líka hárliti.

Það var skrýtið auganráðið sem ég fékk frá Siggu þegar ég bað hana að krulla mig með “Tony’s strong” og lita það síðan svart.

“Ertu alveg viss – Gummi minn” sagði hún og brosti.

“Já, ég er búinn að fá leyfi hjá pabba og mömmu.” svaraði ég ákveðið. Fór í vasa minn og rétti Siggu miða.

“Þau eru sko ekki heima, fóru upp á Akranes með ömmu Nínu, ég gisti hjá Inga frænda”

Á miðanum stóð:

“Hann Gummi má fá permanett og lita hárið svart. Kveðja Sigurður.”


Ég var á þessum árum orðinn nokkuð flinkur í að herma eftir skrift föður míns, þurfti stundum á því að halda þegar ég þurfti að fá frí í leikfimi eða sundi.        (Framhald - seinni hluti kaflans birtist á morgun 17.desember.)

       


mbl.is Dómur tvöfalt lengri í Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dyggðarsnauðir fantar

Bólu-Hjálmar var ávallt talsmaður þeirra sem minna mega sín. Hann bjó sjálfur við fátæklegan kost, átti erfitt með að skilja misskiptingu manna á milli, þó svo að hún sé eðli málsins samkvæmt, nánast eðlileg, en það er önnur saga. Hitt er annað mál að engin á að þurfa að svelta í landi allsnægta. Hér að neðan er ljóð eftir Hjálmar frá Bólu. Ljóð sem á vel við, nú sem fyrr. Fyrir þá sem taka pólitík hátíðlega þá er augljóst að pólitík Hjálmars hallaði til vinstri. Hann meinti þó vel.

 

Það er dauð og djöfuls nauð

er dyggðarsnauðir fantar

Safna auð með augun rauð

þá aðra brauðið vantar


mbl.is „Aðrir voru ævareiðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessað vatnið, bæði heitt og kalt.

Það er ekkert nýtt að Íslendingar séu eftirsóttir, sérstaklega til vinnu. Við erum vinnusöm þjóð og höfum frá landnámi með mikilli vinnusemi og elju byggt upp samfélaga þar sem stoðirnar eru til staðar og innra skipulag til þess gert að hér megi allt blómstra.

Á Íslandi er menntunarstigið hátt. Hér höfum við nægan aðgang að auðlindum, nægir þar að nefna blessað vatnið, bæði heitt og kalt. Í kringum landið eru ein gjöfulustu fiskimið Norður Atlandshafsins. Hér eru spítalar og skólar, prýðilegt vegakerfi. 

Þó svo að tímabundinn skortur á tiltrú erlendra ríkja á peningastefnu okkar hafi brugðist, jú og vissulega hafa þeir margt til síns máls, þá erum við Íslendingar áfram þjóð á meðal þjóða. Við erum upp til hópa gott og réttlátt fólk, (með fáeinum undantekningum) sem er duglegt til vinnu og eðlilega eftirsótt á erlendum vinnumarkaði.

Fyrir mér er þetta engin frétt. Það væri hins vegar frétt ef það hefði breyst.


mbl.is Íslendingar eftirsóttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli 8 - Ljóðasamkeppnin (seinni hluti)

Aftur að ljóðakeppninni. Allir skiluðu inn ljóðum. Ljóðin voru líklega misgóð, en í ljóðagerð skiptir þó helstu máli að vera einlægur og koma hugsunum sínum rétt frá sér.

Ljóðin máttu ekki vera styttri en tvær setningar/línur og ekki lengri en fjórar. Þannig vildi Katrín Þóra að við myndum læra að ramma inn hugsanir okkar á meitlaðan hátt. Orðagjálfur var henni ekki að skapi.

Svona var ljóðið hans Eyþórs Hansen sem varð í 3ja sæti  - þótti einlægt.

 

Afmælið mitt er bráðum

þá fæ ég kakó

þá fæ ég köku

og kannski - góða bók að lesa.


Svona var ljóðið hans Sigurbjörns sem varð í 2 sæti.

 

það er frost og funi

fagurt er til fjalla

fram til sóknar - finnst mér best

framsókn elskar alla

 

Ljóðið þótti meitlað og magnað, miðað við aldur  höfundar. Það varð kurr í bekknum. Ég sat rólegur – pollrólegur.

 

Svo las kennarinn upp ljóðið mitt, það var þögn í bekknum á meðan.

 

      Í búðum flóttans lifir von

um frjálst Palestínuríki

að þjóðin muni eignast einn daginn son

sem mun birtast í friðarlíki.

 

Það skipti engum togum að ljóðið mitt vann. Katrín Þóra las ljóðið aftur og aftur og það blikuðu tár á hvarmi.

Ég var 12 ára.

Henni var ljóst að í bekknum hennar væri snillingur fæddur. Áætlun hennar hafði tekist, listrænt uppeldi að skila sér.

 

Það var stoltur kennari sem fór með nemanda sinn til fundar, næsta dag, við skólastjóra og hina kennarana. Ég átti að lesa ljóðið mitt á kennarastofunni, fyrir alla kennara skólans. Katrín Þóra lét mig standa upp á stól, horfði á mig eins og stolt móðir. Það varð síðar hlutskipti hennar að hlýða á son sinn lesa upp frumsamið efni. Sonur hennar er starfandi rithöfundur og hefur getið sér gott orð sem slíkur, þykir hafa meitlaðan stíl, hefur fengið vaxandi dóma með hverri bók. Í grunninn er hann þó ljóðskáld.

Á kennarastofunni ríkti spenna, enda Katrín Þóra búin að láta hafa eftir sér að verðandi skáld væri að frumflytja sitt fyrsta stórvirki - frumsamið ljóð - Ég hóf lesturinn.

Það skal játast hér og nú að ég var ekki jafn pollrólegur og þegar ljóðið var lesið í fyrsta sinn, að mér sótti beygur.

Ég kláraði ljóðið og kennararnir og skólastjórnendur litu forviða á hvert annað. Þetta gat hann, hugsaði fólkið. Ólátabelgurinn, einbirnið athyglissjúka, einkasonur foreldra sinna. Þarna stóð hann, rjóður í framan og las með einlægri en skjálfandi röddu, frumsamið ljóð með tilvitnun í trúarbragðastríð í Austurlöndum fjær, með vísan í von mannkyns um eilífan frið.

Allir voru yfir sig hrifnir, allir nema einn. Sigurður Kerúlf, sem á þessum árum gegndi stöðu varaformanns Alþýðubandalagsins á Selfossi.

Sigurður var vel að sér í nútímakveðskap. Hann hafði fylgst með uppgangi Ásbjörns Kristinssonar, Bubba Morthens, allt frá því Bubbi söng Stál og Hnífur. Sigurði hafði líkað vel alþýðlegt yfirbragð söngvarans og þá réttlætiskennd sem einkenndi texta hans sem og umhyggju fyrir réttindum verkalýðsins. Siggi Kerúlf kunni alla texta Bubba, utanbókar. Bubbi var þegar hér var komið við sögu nýbúinn að gefa út plötuna "Í mynd" með hljómsveit sinni Egó. Á plötunni var lagið. "Guðs útvalda þjóð" Það lag var í sérstöku uppáhaldi hjá Sigurði Kerúlf.

Hér að neðan er texti lagsins:

 

Líkt og forðum að heiðnum sið

að brenna menn á báli,

þeir herja á bæi, boða frið

með glampa af ísraelsku stáli.


              Í minningu milljóna gasdauðra manna

réttlæta morð á nýfæddu barni.

Heiminum vilja sína og sanna

að þeir séu guðs útvaldi kjarni.


     Limlestir búkar, neyðaróp

fullorðin börnin ærir.

Logandi helvíti, sársaukahróp

saklausir skotnir á færi.


    Sandurinn geymir sólhvít bein

ryðgaðar stríðsminjar.

Er ekkert eftir nema minningin ein

í loftinu dauðann þú skynjar.

 

Í búðum flóttans lifir von

um frjálst Palestínuríki

að þjóðin mun eignast einn daginn son

sem mun birtast í friðar líki.


Skáldið var afhjúpað. Ég sté af stólnum, frægðarsólin sem hafði umleikið mig til skamms tíma, hafði sest. Sekur um ritstuld.

 

Katrín Þóra tilkynnti bekknum síðar sama dag, að það hefðu orðið breytingar á niðurstöðum úr ljóðasamkeppninni. Það hefði enginn unnið. Við værum öll sigurvegarar, sem þýddi það að ljóðið hans Audda var einnig á meðal vinningsljóða, en það var einhvern veginn svona.

 

Það er gott að pissa á tré

þá vaxa þau og verða græn.

piss piss og spræni spræn.

 

Katrínu Þóru kann ég bestu þakkir fyrir gott ljóðrænt uppeldi.


Þjóð sem er þjökuð af víni

Það er áhugavert að rýna í myndlíkingu borgarstjóra.Hann hittir naglann á höfuðið.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að taka pólítíkina ofan af þeim stalli sem hún er gjarnan á, stundum þarf að setja hlutina í búning svo að fólk nenni að hlusta. Myndlíkingar Jóns er ekki bara áhugaverðar heldur eru þær líka skemmtilegar og skemmtilegir hlutir eru líklegri til að vekja fólk til umhugsunar en leiðinlegir hlutir. 

Það er ekki að ástæðulausu að einn fremsti kvikmyndaleikstjóri og leikari sögunnar, Charlie Chaplin kaus að koma grafalvarlegum boðskap mynda sinna á framfæri með gamansemi. 

Með glettni og góðu gríni
Gnarrinn bætir geð
Þjóð sem er þjökuð af víni
þarf að fylgjast með....


mbl.is Líkti þjóðinni við fjölskyldu alkóhólista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skera eða ekki skera - undan manni.

 
Að vera eða ekki vera
víst er það spurning með sanni.
Að skera eða ekki skera
skelfing ef skorið er "undan" manni.

mbl.is Skar undan kærasta dótturinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli 7 - Ljóðasamkeppnin (fyrri hluti)

 

Hugdettum mínum á æskuárum voru nánast engin takmörk sett. Ekki svo að skilja að það sé vont að fá mikið af hugmyndum, verra er að finna hjá sér þörf til að framkvæma þær allar.

Ég var í æði skrautlegum bekk í barnaskóla. Þar var margt um skemmtilega karaktera. Kennarinn okkar, Katrín Þóra, var virkilega skemmtileg manneskja. Katrín Þóra var og er enn mjög listhneigð kona. Hún kenndi okkur að lesa og skilja ljóð, las mikið fyrir okkur og lagði áherslu á teikningu og myndmennt. Þetta fannst okkur gaman.

 

Pabbi Katrínar Þóru,  var ljóðskáld og ljóðaþýðandi. Ein hans þekktasta þýðing er "síðasta blómið" eftir James Thurber sem hann þýddi snilldarvel. Utangarðsmenn, með Ásbjörn Kristinsson, Bubba Morthens, fremstan meðal jafningja, gerðu síðan þýðinguna ódauðlega með samnefndu lagi af plötunni Geislavirkir. Mér fannst Bubbi Morthens æðislegur á þessum árum, mikið skáld. Ég vildi geta búið til ljóð og texta eins og hann.

Við krakkarnir vorum misjafnlega móttækileg fyrir tilraunum Katrínar Þóru að gera úr okkur skáld og listamenn. Ég held að ég geti sagt með nokkurri vissu að ekkert okkar hafi gerst listamaður að atvinnu, en tilraun  Katrínar Þóru var þakkarverð.

Það var alltaf fjör í kennslustofunni. Í bekknum voru margir snillingar. Sigurbjörn Sverrisson blaðamaður, Heimir Olgeirsson, iðnaðarmaður og atvinnurekandi, Sævar Már  lífskúnstner, hárskeri og sjómaður, Magnús Tumi Oddsson stjórnarmaður í KSÍ og matreiðslumaður, Páll Auðunn (Auddi), sjálfstætt starfandi lyfsali í Hveragerði, Eyþór Hansen, lagermaður og tónlistarmaður í hjáverkum, Matti ”langi” Guðmundsson atvinnuljósmyndari, Bergsteinn Aðalsteinsson blaðamaður og baráttumaður fyrir bættum kjörum barna í Zimbabwe í Ródesíu... Það yrði of langt mál að telja alla upp. Bekkjarsystkyni mín voru heilt yfir góðir krakkar. Mér þótti vænt um þau öll, þó ég hafi ekki alltaf sýnt væntumþykju mína með réttum hætti.

 

Katrín Þóra tilkynnti okkur einn daginn, kát í bragði, að nú skildi blásið til ljóðasamkeppni í bekknum. Allir ættu að setja saman ljóð af einhverju tagi. Verkefnið var að skrifa um það sem við hugsuðum um áður en við færum að sofa.

Það var mikil spenna í bekknum fyrir þessari keppni. Spenntastir voru samt undirritaður og Sigurbjörn Sverrisson, sem þá hafði látið töluvert af sér kveða á ritvellinum. Sigurbjörn hafði og hefur enn mikla hæfileika til að lýsa umhverfi sínu, mönnum og málefnum, í rituðu máli. Hann var talinn sigurstranglegastur. Páll Auðunn (Auddi) var ekki talinn eiga möguleika.

Arna, mamma Audda, var aldrei kölluð annað en Arna Parket af okkur drengjunum. Hún hafði splæst í nýtt parket um það leyti sem Auddi hóf nám í grunnskóla. Inn á það parket mátti enginn labba nema að undangenginni strangri skoðun á fótbúnaði og sokkum.

 

Við gerðum okkur það oft að leik að missa eitthvað matarkyns niður á parketið, bara til að sjá Örnu verða vonda. Sævar Már gekk lengst í því máli þegar hann missti, viljandi, fullan Cheerios disk á gólfið. Hann var dæmdur óvelkominn á heimili þeirra sómahjóna í tvö ár á eftir. Í refsingarskyni fyrir þennan dóm, lamdi Sævar Már og hrekkti, Audda reglulega, eða allt þangað til Audda auðnaðist að útvega sér aukavinnu við að bera út blöð. Fyrir peninginn sem hann vann sér inn keypti hann græna frostpinna og kókosbollur sem hann gaf Sævari. Í staðinn skildi Sævar hætta að lumbra á honum og hrekkja. Sem betur fer fyrir Audda, gekk það eftir. Auddi var Sævari alltaf þakklátur fyrir þennan samning, hann lærði þarna að "díla" Þeirra viðskipti áttu reyndar eftir að liggja saman á allt öðrum vettvangi síðar.

(Framhald kaflans á morgun, miðvikudaginn 15.des.)


Ice-Ice baby.

Ok. Þá er samkomulagið mikla í kringum Icesave að líta dagsins ljós. Það hefur margt verið ritað og rætt um lögmæti samningsins, aðkomu ákveðinna stjórnmálamanna og ábyrgð þeirra varðandi framvindu mála.

Fyrir mér er þetta mál einfalt. Þegar maður sker í burtu allt kjaftæðið, tekur til hliðar aukaatriðin og rýnir í málið, inn að merg, þá birtist aðalatriðið. Mannfjandarnir sem stofnuðu til þessara meintu ábyrgða. 

 

Í bankunum brostu menn.

Búnir að redda málum.

Brosin nú frosin, því brosa þeir enn

Bandítar, bófar á ísi hálum.

Svo syngja þeir saman í kór.

Sælir þó syndin sé stór.

 

”Við borgum bara kannski,

definatily-maybe

Ísland er svalt, ICE, ICE - baby”

 

 


mbl.is Icesave-samningarnir á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að keyra á hús, reykjandi.

Ég þekkti einu sinni mann sem keyrði inn í stofu hjá öðrum manni. Hann hafði verið að dunda sér við að reykja undir stýri, missti sígarettuna í gólfið. Úti var mikil hálka. Hann teygði sig niður eftir sígarettunni en ekki vildi betur til en svo að honum skrikaði fótur við aðgerðir þessar. Hann steig óvart á bensíngjöfina með þeim afleiðingum að bíllinn jók hraða sinn úr 40km í tæplega 100km. Það má líka geta þess að maðurinn hafði klárað eina viskíflösku, sér til gamans, skömmu áður.

Þegar maðurinn áttaði sig á hvað var í gangi, gaf hann sígarettuna upp á bátinn, alla vega um stund og sté eins fast og hann mátti á bremsur bílsins, en það var of seint. Bílinn þaut yfir götuna og nam ekki staðar fyrr en hann var hálfur inn um stofugluggann hjá vammlausum póstbera í heimabæ, meints ökuníðings og reykingamanns.

Póstberinn og kona hans sem voru fyrir framan sjónvarpið að horfa á Derrick, fylltust skelfingu. Ekki varð skelfingin minni þegar okkar maður sté út úr bílnum, og lét eftirtalin orð falla.

- Þetta er nú ljóta klúðrið.

Póstberinn stóð orðlaus og skjálfandi. Konan hans í taugáfalli en Derrick hélt áfram að handtaka menn, enda lögreglumaður af Guðs náð.

Okkar maður skynjaði ekki alvarleika málsins, enda dauðadrukkinn, fannst samt eins og hann þyrfti eitthvað segja og lét neðangeind orð falla svona tilað loka málinu.

- Nú er ég pottþétt hættur að reykja, alla vega þegar ég er að keyra.

Svo gekk hann á braut. Út í myrkrið. Blindfullur, en hættur að reykja.

 


mbl.is Keyrði inn í Krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband