Kafli 8 - Ljóðasamkeppnin (seinni hluti)

Aftur að ljóðakeppninni. Allir skiluðu inn ljóðum. Ljóðin voru líklega misgóð, en í ljóðagerð skiptir þó helstu máli að vera einlægur og koma hugsunum sínum rétt frá sér.

Ljóðin máttu ekki vera styttri en tvær setningar/línur og ekki lengri en fjórar. Þannig vildi Katrín Þóra að við myndum læra að ramma inn hugsanir okkar á meitlaðan hátt. Orðagjálfur var henni ekki að skapi.

Svona var ljóðið hans Eyþórs Hansen sem varð í 3ja sæti  - þótti einlægt.

 

Afmælið mitt er bráðum

þá fæ ég kakó

þá fæ ég köku

og kannski - góða bók að lesa.


Svona var ljóðið hans Sigurbjörns sem varð í 2 sæti.

 

það er frost og funi

fagurt er til fjalla

fram til sóknar - finnst mér best

framsókn elskar alla

 

Ljóðið þótti meitlað og magnað, miðað við aldur  höfundar. Það varð kurr í bekknum. Ég sat rólegur – pollrólegur.

 

Svo las kennarinn upp ljóðið mitt, það var þögn í bekknum á meðan.

 

      Í búðum flóttans lifir von

um frjálst Palestínuríki

að þjóðin muni eignast einn daginn son

sem mun birtast í friðarlíki.

 

Það skipti engum togum að ljóðið mitt vann. Katrín Þóra las ljóðið aftur og aftur og það blikuðu tár á hvarmi.

Ég var 12 ára.

Henni var ljóst að í bekknum hennar væri snillingur fæddur. Áætlun hennar hafði tekist, listrænt uppeldi að skila sér.

 

Það var stoltur kennari sem fór með nemanda sinn til fundar, næsta dag, við skólastjóra og hina kennarana. Ég átti að lesa ljóðið mitt á kennarastofunni, fyrir alla kennara skólans. Katrín Þóra lét mig standa upp á stól, horfði á mig eins og stolt móðir. Það varð síðar hlutskipti hennar að hlýða á son sinn lesa upp frumsamið efni. Sonur hennar er starfandi rithöfundur og hefur getið sér gott orð sem slíkur, þykir hafa meitlaðan stíl, hefur fengið vaxandi dóma með hverri bók. Í grunninn er hann þó ljóðskáld.

Á kennarastofunni ríkti spenna, enda Katrín Þóra búin að láta hafa eftir sér að verðandi skáld væri að frumflytja sitt fyrsta stórvirki - frumsamið ljóð - Ég hóf lesturinn.

Það skal játast hér og nú að ég var ekki jafn pollrólegur og þegar ljóðið var lesið í fyrsta sinn, að mér sótti beygur.

Ég kláraði ljóðið og kennararnir og skólastjórnendur litu forviða á hvert annað. Þetta gat hann, hugsaði fólkið. Ólátabelgurinn, einbirnið athyglissjúka, einkasonur foreldra sinna. Þarna stóð hann, rjóður í framan og las með einlægri en skjálfandi röddu, frumsamið ljóð með tilvitnun í trúarbragðastríð í Austurlöndum fjær, með vísan í von mannkyns um eilífan frið.

Allir voru yfir sig hrifnir, allir nema einn. Sigurður Kerúlf, sem á þessum árum gegndi stöðu varaformanns Alþýðubandalagsins á Selfossi.

Sigurður var vel að sér í nútímakveðskap. Hann hafði fylgst með uppgangi Ásbjörns Kristinssonar, Bubba Morthens, allt frá því Bubbi söng Stál og Hnífur. Sigurði hafði líkað vel alþýðlegt yfirbragð söngvarans og þá réttlætiskennd sem einkenndi texta hans sem og umhyggju fyrir réttindum verkalýðsins. Siggi Kerúlf kunni alla texta Bubba, utanbókar. Bubbi var þegar hér var komið við sögu nýbúinn að gefa út plötuna "Í mynd" með hljómsveit sinni Egó. Á plötunni var lagið. "Guðs útvalda þjóð" Það lag var í sérstöku uppáhaldi hjá Sigurði Kerúlf.

Hér að neðan er texti lagsins:

 

Líkt og forðum að heiðnum sið

að brenna menn á báli,

þeir herja á bæi, boða frið

með glampa af ísraelsku stáli.


              Í minningu milljóna gasdauðra manna

réttlæta morð á nýfæddu barni.

Heiminum vilja sína og sanna

að þeir séu guðs útvaldi kjarni.


     Limlestir búkar, neyðaróp

fullorðin börnin ærir.

Logandi helvíti, sársaukahróp

saklausir skotnir á færi.


    Sandurinn geymir sólhvít bein

ryðgaðar stríðsminjar.

Er ekkert eftir nema minningin ein

í loftinu dauðann þú skynjar.

 

Í búðum flóttans lifir von

um frjálst Palestínuríki

að þjóðin mun eignast einn daginn son

sem mun birtast í friðar líki.


Skáldið var afhjúpað. Ég sté af stólnum, frægðarsólin sem hafði umleikið mig til skamms tíma, hafði sest. Sekur um ritstuld.

 

Katrín Þóra tilkynnti bekknum síðar sama dag, að það hefðu orðið breytingar á niðurstöðum úr ljóðasamkeppninni. Það hefði enginn unnið. Við værum öll sigurvegarar, sem þýddi það að ljóðið hans Audda var einnig á meðal vinningsljóða, en það var einhvern veginn svona.

 

Það er gott að pissa á tré

þá vaxa þau og verða græn.

piss piss og spræni spræn.

 

Katrínu Þóru kann ég bestu þakkir fyrir gott ljóðrænt uppeldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband