Kafli 9 - Diego Armando Maradona (fyrri hluti)

 

Þegar ég var yngri þá var ég mjög upptekinn af fólki sem hafði sérstaka hæfileika. Mér fannst slíkt fólk alveg magnað.  Ég var hrifinn af hvers kyns töfrabrögðum, sjónhverfingum, spilagöldrum. Ég var einnig hrifinn af mönnum sem gátu gert listir. Uppáhaldið mitt var samt Diego Armando Maradona, sá mikli knattspyrnusnillingur. Hann var mitt átrúnaðargoð. Ég þakti veggina á herberginu með myndum af Maradona, ég klippti allt út sem var skrifað um hann í blöðunum. Ég reyndi að gera alla þá takta sem Maradona framkvæmdi. Sumt tókst, annað ekki. Það var ekki fyrr en ég varð eldri sem ég náði sumum takta þessa ágæta knattspyrnusnillings, en þeir taktar voru þó ekki á knattspyrnuvellinum, því miður.

Maradona var með svart hrokkið hár. Ég var með ljóst slétt hár. Við vorum báðir litlir, ég þótti góður í fótbolta, hann var snillingur í fótbolta. Ég vildi verða eins og hann. Þetta var árið 1983, ég var 12 ára.

Mamma Magnúsar Tuma, var kölluð Sigga. Hún var óskaplega góð við okkur strákana. Þangað gátum við farið þegar okkur langaði í kökur og mjólk. Þangað var gott að leita. Hún var heimavinnandi húsmóðir, alltaf með allt strokið og fínt, lagði alúð í að rækta garðinn sinn. Sigga var líka lunkin við að klippa hár. Hún gerði talsvert af því að klippa hárið á strákunum í hverfinu og setja permanett í hárið á mömmum þeirra.

Permanett var ofboðslega vinsælt í þá daga. Á einum klukkutíma gátu töfraefni hárvöruframleiðandans “Tony” breytt sléttu hári í krullað.

Tony, permanett var hægt að fá í þremur styrkleikaflokkum:

1.    Létt – (Light) þá var hárið með léttum liðum, líflegt. Þetta var mjög vinsælt.

2.    Milli – (medium) Krullur, millistórar en þó alls ekki afgerandi. Þetta var fyrir konur með sítt hár.

3.    Strong – (sterkt) Afró krullur – alvöru krullur, eins og á blámönnum úr svörtustu Afríku. Þetta var á boðstólum en sjaldan pantað. Það var helst að þunnhærðar konur fengu sér þetta til að auka á þéttleikann í hárinu.

 

Sigga, mamma Magnúsar Tuma, átti allar týpur af Tony permanetti og hafði talsvert að gera í því að græja slétthærða nágranna sína. Sigga átti líka hárliti.

Það var skrýtið auganráðið sem ég fékk frá Siggu þegar ég bað hana að krulla mig með “Tony’s strong” og lita það síðan svart.

“Ertu alveg viss – Gummi minn” sagði hún og brosti.

“Já, ég er búinn að fá leyfi hjá pabba og mömmu.” svaraði ég ákveðið. Fór í vasa minn og rétti Siggu miða.

“Þau eru sko ekki heima, fóru upp á Akranes með ömmu Nínu, ég gisti hjá Inga frænda”

Á miðanum stóð:

“Hann Gummi má fá permanett og lita hárið svart. Kveðja Sigurður.”


Ég var á þessum árum orðinn nokkuð flinkur í að herma eftir skrift föður míns, þurfti stundum á því að halda þegar ég þurfti að fá frí í leikfimi eða sundi.        (Framhald - seinni hluti kaflans birtist á morgun 17.desember.)

       


mbl.is Dómur tvöfalt lengri í Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hver eru tengsl dóms Hæstaréttar í þessari frásögn?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 16.12.2010 kl. 19:48

2 Smámynd: Sigurður Fannar Guðmundsson

Sæll Guðjón, smá mistök, ætlaði að blogga um þá frétt og afritaði þennan texta þar inn. Tengslin eru þarafleiðandi afskaplega ómerkileg, nema að Maradona hefur verið dæmdur af Hæstarétti knattspynrumála fyrir lyfjamisnotkun.

Sigurður Fannar Guðmundsson, 16.12.2010 kl. 22:04

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Öllum getur orðið á í messunni.

kv.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 16.12.2010 kl. 22:41

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

....smúþþþþþ

Hrönn Sigurðardóttir, 19.12.2010 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband