Kafli 5 - Eplakakan hennar Ömmu

Eplakakan hennar Ömmu Nínu

 

Talandi um hugdettur. Jólin 1983, þá tólf ára gamall. Ennþá var ég algjört barn, þó svo ein og ein ranghugmynd um hitt kynið væru farnar að þvælast fyrir í höfði mínu. Amma Nína og Afi Símon, móðurforeldar mínir, höfðu það fyrir sið að bjóða börnum sínum og barnabörnum í hangikjöt á Jóladag. Þá var mikið um dýrðir, börn þeirra og barnabörn öll samankomin í stóra fína húsinu sem afi og amma byggðu fyrir sparifé sitt, eins og gert var í gamla daga, engin lán, bara peningar og góð aðstoð vina og ættingja.

 

 Frændfólk mitt í móðurætt skiptist í tvo flokka, venjulegi hlutinn og síðan athyglissjúki hlutinn. Venjulegi hluti fólksins reynir að halda uppi eðlilegum samræðum á meðan athyglissjúki hlutinn talar svo mikið og lætur hátt að venjulega fólkið verður annað hvort að öskra yfir hina eða draga sig til hlés. Ég tilheyri athyglissjúka hlutanum. Það er nú reyndar svo í seinni tíð að ég hef aðeins gefið eftir, finnst bara gott að borða og skoða allt fólkið, hlusta á það segja frá sjálfum sér og sínum. Fram að 30 ára aldri lék þó engin vafi á því að ég kunni betur við að tala en hlusta.

 

Aftur að jólunum 1983. Ég og Dagbjartur frændi minn sem er tveimur árum eldri en ég og líklega tveimur höfðum hærri , lékum okkur gjarnan saman í jólaboðum. Amma og Afi bjuggu, eins og áður sagði, í  stóru og fínu húsi, sem taldi þrjár hæðir auk kjallara. Í Kjallaranum var stórt búr. Þar geymdi amma stundum kökur.

Þessi jól var hangikjöt á borðum og í eftirrétt var eplakaka með rjóma. Eplakaka þessi var ávallt og er enn, þegar hún er framreidd, mjúk og góð.  Í hana er alltaf sett ein mandla og eins og tíðkast á mörgum íslenskum heimilum eru veitt verðlaun til handa þeim sem fær möndluna í sína skál. Mig hafði lengi langað í möndluna en líklega aldrei meira en jólin 1983.

Ég bað Dagbjart frænda minn að fylgja mér niður í kjallara til að skoða eplakökuna. Ætlunin var að athuga hvort að amma hafi skilið eftir einhver ummerki um hvar hún lét möndluna góðu. Við gáðum vel en engin ummerki að sjá. Kakan var vel varin af rjóma og súkkulaðispæni. En þar sem við störðum á kökuna fékk ég hugmynd.

„Bjartur, hlauptu upp í eldhús og finndu möndlupokann hennar Ömmu.“

„Af hverju,“ spurði Bjartur.

Ég svaraði engu, en bað hann að flýta sér, tíminn væri naumur.

Hangikjötið rann ljúflega niður. Malt og appelsín með. Tveir snáðar gátu samt varla beðið eftir eplakökunni og ýttu fast á eftir ömmu sinni að bera fram kökuna.

„Allt hefur sinn tíma strákar mínir,“ svaraði amma.

„ Fáið ykkur meira hangikjöt, og Gummi minn þú verður líka að borða kartöflur eins og hinir.“

 

En svo kom að því að kakan var borin fram. Að vanda fengu sér allir vel á diskinn. Ég horfði yfir stofuna, stóru fínu stássstofuna hennar ömmu Nínu og afa Símons. Þarna sat afi í stóra kóngastólnum sínum. Stóllinn var sérinnfluttur frá Danmörku eins og flest þeirra stofustáss. Afi át sína köku af yfirvegun. Afi gerði allt af yfirvegun. Þarna var Hrafn bróðir mömmu og Sæunn konan hans, sem er reyndar systir pabba. Dætur þeirra eru tengdar mér í allar áttir, ég get ekkert farið á mannfagnaði án þess að Hrafn og Sæunn og þeirra dætur séu þar. Hrafn át rólega en Sæunn át eins og hún væri að stelast, laumaði bitunum upp í sig. Ég sá líka hvar Ásgeir frændi minn hakkaði í sig kökuna, enda mikill sælkeri líkt og Þorbjörg systir hans sem át líka hratt. Ég var búinn að finna út að þeir sem tala mest borða hraðast. Mamma sat og borðaði hægt. Barnabörnin átu hver með sínu nefi, enda á misjöfnum aldri.

„Ég er með möndluna“, sagði ég hróðugur og veifaði möndlunni minni.

Það varð uppi fótur og fit í stássstofunni. Afi gamli, leit upp og sagði ekkert. Tobba frænka brást ókvæða við og sagði það vera skrýtið því að hún væri líka með möndluna. Þá fékk Ásgeir frændi eitt af sínum frægu hlátursköstum en náði að stynja upp úr sér á milli hláturrokanna að hann væri líka með möndluna og það tvær.

Til að fullkomna vitleysuna þá fór Guðrún, dóttir Hrafns og Sæunnar að gráta. Hún var líka með möndlu. Guðrúnu varð hins vegar ekki meint af grátinum, starfar í dag sem prestur þjóðkirkjunnar, þar sem hún talar mikið og hátt. Afi Símon átti lokaorðið.

„Ég er líka með möndlu.“

Ég fann hvernig allra augu beindust að mér. Ég sagði ekkert. Dagbjartur frændi var ekki eins sterkur á svellinu.

„Þetta var bara smá grín“, sagði hann.

„Við settum nokkrar möndlur í kökuna.“ bætti Dagbjartur við og var skömmustulegur, enda kannski ástæða til.

Ég þagði.

 

Mamma leit á mig hvössum augum, mér sýndist pabbi glotta. Ásgeir frændi var um það bil að míga í brækurnar af hlátri. Ömmu var alls ekki skemmt.

Mér lék mest forvitni að vita hver fengi möndlugjöfina. Þótti líklegast að Ásgeir fengi hana því að hann fékk tvær.

Afi og amma fóru fram í eldhús. Eftir nokkuð snörp fundarhöld varð úr að þýsk vinnukona, sem vann á laxeldisstöð sem Ásgeir frændi átti, fengi möndlugjöfina. Þetta þóttu makleg málagjöld.

Það var ekki fyrr en árið 1992 sem ég fékk möndluna, þá 21 árs gamall. Sagan er rifjuð upp um hver einustu jól, og alltaf finnst mér þetta aðeins sniðugt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband