Kafli 3. - Draumar og Þrár

Draumar og þrár


Það er sumarbyrjun. Ég kann vel við þá árstíð, ólíkt mörgum þunglyndissjúklingum sem alltaf fyllast kvíða þegar þjóðin stormar út á þjóðvegina, vopnuð fellihýsum og flatkökum með hangikjöti, söngtextabókum og 12 lítrum af gosi, sem það keypti á tilboði í Bónus.

"Sexí pakki á special price, six pakkinn í útileguna á 1.499," segir heimskur útvarpsmaður.

Heimskur neytandi hleypur til og kaupir "pakkann" sem í reynd er 100 krónum dýrari en ef hann hefði keypt sex stakar tveggja lítra flöskur. Síðar sama kvöld þegar einhver afhjúpar heimsku hans, þá er svarið klárt. Nýr frasi.

"Það er ekki ókeypis að vera með six-pakk"

Frasar eru fyrir minn smekk ágætir til síns brúks, þegar þeir eiga við. Ofnotkun Íslendinga á frösum, sérstaklega aulafrösum úr íslenskum sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum er rannsóknarefni. Hér er góður frasi.

Hver skeit í deigið?”

Þennan frasa er hægt að nota þegar manni finnst eitthvað matarkyns vont á bragðið. Sló honum fram í giftingarveislu í fyrra, var blindfullur, það hlógu ekki allir.


Ég sit í sumarhúsi austur í Grímsnesi. Hálfnaður með viskíflösku, þegar þetta er skrifað. Annað augað er komið í pung, eins og á pabba þegar hann var fullur, fyrir framan mig er mynd af tveimur manneskjum. Mynd sem var máluð árið 1974, myndin er bláleit, manneskjurnar hvítar, tveir líkamar, engin andlit. Maður og kona, en það er erfitt að sjá. Tvær manneskjur, hönd í hönd.

Úti heyri ég óminn af fuglasöng. Á þessu augnabliki á ég erfitt með að greina raunveruleika frá skáldskap. Finnst eins og ég sé staddur í miðri skáldsögu. Ég veit samt að ég er að verða fullur og það ekki í fyrsta sinn.


Þú átt þér draum, gerir allt sem í valdi þínu stendur svo að draumur þinn rætist. Þú vinnur að því dag og nótt, fórnar dýrmætum tíma. Allt til þess að sjá drauminn rætast.

Einn góðan veðurdag rætist svo þessi draumur. Þú ert staddur í miðjum draumi. Þú spyrð sjálfan þig; Hvað nú ?

Þú veist svarið. Njóttu draumsins, deildu honum með þeim sem standa þér næst. Svo vaknar þú upp.

Var það þetta sem ég vildi ?


Þetta skrifaði ég síðastliðna nótt, blindfullur. Svona pælingar koma stundum frá mér. Þá gerist ég háfleygur, en það er yfirleitt ekki nema undir áhrifum af 12 ára gömlu viski, þegar tunglið er vaxandi eða fullt. Ég hef ótal sinnum vaknað daginn eftir þá iðju, litið yfir skrif gærkvöldsins og verið hissa á sjálfum mér og skrifum mínum.

Að þessu sinni ætla ég að láta þetta standa. Jafnvel þó ég hafi verið vel við skál. Það er ekkert sem bannar manni að skrifa fullur. Það er meira að segja margútbreiddur misskilningur að menn verði gáfaðri þegar þeir eru fullir. Fólk talar um að rithöfundar losni ekki undan oki eigin hugsana fyrr en þeir fá sér í glas. Þannig frelsi þeir hugsanir sínar. Sitt sýnist hverjum.

 

Jaroslav Hasek skrifaði “Góða dátann Svejk” að mestu leyti undir áhrifum áfengis, var satt að segja blindfullur allan tímann. Bókin um Svejk þykir einhver sú fyndnasta bók sem skrifuð hefur verið. Fyndin á sinn sérstaka hátt. Ég verð bara alvarlegur þegar ég er fullur, vil kafa ofan í málin, endurtek mig gjarnan og mér yfirsjást smáatriðin. Þegar ég skrifa án áhrifa áfengis þá er ég skorinortari, snarpari, hugsanlega skarpari.

Ég hef alltaf vitað að ég gæti skrifað, sumir kalla það hæfileika, ég kann því betur að nefna þetta kunnáttu. Meðfædda kunnáttu.

Smiður sem vinnur verk sitt vel er ekki kallaður hæfileikaríkur, hann er sagður kunnáttumaður, góður í sínu fagi. Kokkur sem vinnur sína vinnu, eftir þar til gerðum uppskriftum, hann er stundum klappaður upp og látinn hneigja sig fyrir vinnu sína, eins og leikari. Þessu er misskipt en í öllu falli erum við mismikilli kunnáttu gædd, hvert á sínu sviði. Mitt svið er lífsins svið. Ég horfi og hlusta, skemmti mér vel við þá iðju. Að hlusta á fólk segja sögur er eitthvað sem hefur alltaf heillað mig. Fólk segir að sjálfsögðu misjafnlega frá. Sumir hafa leiftrandi frásagnargáfu og það gustar af þeim þegar sagan er sögð. Aðrir segja söguna hægt og yfirvegað, jafnvel klaufalega. Fyrir mér skiptir ekki máli hvernig hún er sögð. Ég hlusta eftir efni sögunnar, innihaldinu, og geri mér að leik að setja söguna upp á minn hátt.

 

Þannig hef ég skrifað niður fullt af sögum sem ég hef heyrt frá fólki sem ég hef hitt um dagana. Ég hef sett innihald þeirra í mínar umbúðir. Gert þær að mínum, eins og sagt er um söngvara sem syngja lög eftir aðra í breyttum útsetningum. Mín eigin tónverk fljóta svo með sem uppfyllingarefni.

Frumsamið efni sem byggir á raunveruleikanum, spegill lífsins. Mörkin eru aldrei skýr. Þetta er allt spurning um afstöðu eða hugarástand.

 

(framhald 11.des)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband