Kafli 11 - Fermingin (fyrri hluti)

Það er stundum skrýtið hvernig orsakir hafa afleiðingar. Hvernig eitt leiðir af öðru. Hvernig ómerkilegir hlutir verða stundum til þess að tilvera fólks tekur á sig aðra mynd.

Ég fermdist eins og flest önnur börn. Gekk í mína fermingafræðslu til sr. Sigurðar Sigurðarsonar, sem síðar varð vígslubiskup. Sigurður skírði mig og fermdi mig.  Ég hélt hann myndi gifta mig, en svo var ekki. Ég var giftur af tveimur prestum. Annar þeirra heitir Gunnar Þorbjörnsson og er sellóleikari, Gunnar er hjartahlýr, kannski stundum aðeins of kærleiksríkur. Hinn presturinn sem tók þátt í giftingarathöfninni er sr. Guðrún Hrafnsdóttir, Gunna frænka. Hún er skemmtilegur prestur, heldur líflegar ræður og fær fólki til að líða vel í kirkju.

 

Mér fannst ekkert sérstaklega gaman í fermingarfræðslunni, sr. Sigurður, reyndi eflaust sitt besta, það var bara ekki nóg. Mér leið á þessum árum ekkert vel í kirkjunni. Þar var óþægilega mikil ró. Í mér var alltaf einhver fiðringur sem leita þurfti útrásar. Það var bölvaður prakkari í mér.

 

Móðir mín hefur sagt mér að þegar ég var lítill(ungabarn) þá hafi komið á mig undarlegur svipur, rétt áður en ég gerði eitthvað sem mér var bannað. Þegar ég spurði hana hvernig þessi svipur var – þá svaraði hún.

”Sami svipurinn og kom á þig í lestinni í Danmörku, þegar þú varst sex ára og stóðst við hliðina á neyðarbremsunni, nýbúinn að spyrja mig hvað þetta væri. Ég verandi grandalaus, asnaðist til þess að segja þér hvað þetta væri, hefði betur sleppt því. Svo kom á þig þessi undarlegi svipur, sem ég hafði séð á andliti þínu allt frá því þú varst tveggja ára gamall, svipur sem ég hef lært að óttast. Augun pírast, tungan fer upp á efri vöruna, svo gerir þú alltaf það sem maður óttast mest. Manstu þegar þú reifst í bremsuna og okkur var hent út úr lestinni ?”

 

Ég hafði háar hugmyndir um ferminguna, flestar þeirra snéru að því hversu mikla peninga ég myndi fá að gjöf í veislunni. Mamma og pabbi gerðu sitt besta til að benda mér á mikilvægi trúarinnar og sögðu mér margoft að gjafir og peningar væru nú ekki allt. Það þyrftu allir að læra trúarjátninguna, staðfesta trú sina og tryggð í Jesú nafni, svo væri líka alltaf gaman að hitta stórfjölskylduna. Ég held að þau hafi haft rétt fyrir sér.

 

Fermingin gekk vel, ég tuggði brauðið, fékk minn fyrsta vínsopa (í drottins nafni) og hreyfði varirnar þegar hinir krakkarnir fóru með trúarjátninguna.

 Mér tókst með einhverjum óskiljanlegum hætti að læra ekki trúarjátninguna utanbókar. Það sem meira var, sr. Sigurður núverandi vígslubiskup, virtist ekki hafa verið að hlusta þegar hann hlýddi mér yfir. Ég hef oft hugsað af hverju hann var ekki að hlusta ?

 Mjög líkleg skýring er tengsl fjölskyldu minnar við kirkjuna. Amma Nína var guðhrædd kona og vís. Hún var ein aðalsöngstjarnan í kirkjukórnum og mjög virk í kirkjustarfinu. Kannski vildi verðandi vígslubiskup ekki styggja Ömmu með því að kvarta undan trúleysi barnabarnsins. Amma var mezzósópran, þótti snjöll í milliröddun. Gylfi organisti kennir í dag syni mínum söng. Hann hefur miklar mætur á syni mínum. Segir hann af góðu fólki kominn, með góða rödd. Gylfi talar alltaf fallega um ömmu og hennar afkomendur. Gylfi varð mjög glaður þegar Gunna frænka varð prestur. Söngröddin hennar ömmu erfðist þó ekki í alla hennar afkomendur.

Ég byrjaði trúarjátninguna rétt, babblaði svo einhver stikkorð þannig að  játningin myndi hljómaði sannfærandi.

 

Fermingarveislan var haldin í "Knæpunni”. Knæpan var bar. Fyrsti pöbb bæjarins, niðurgrafinn í kjallara Kaupfélagsins.

Ég átti oftsinnis eftir að að koma þangað niður, nokkrum árum síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband