Kafli 7 - Ljóðasamkeppnin (fyrri hluti)

 

Hugdettum mínum á æskuárum voru nánast engin takmörk sett. Ekki svo að skilja að það sé vont að fá mikið af hugmyndum, verra er að finna hjá sér þörf til að framkvæma þær allar.

Ég var í æði skrautlegum bekk í barnaskóla. Þar var margt um skemmtilega karaktera. Kennarinn okkar, Katrín Þóra, var virkilega skemmtileg manneskja. Katrín Þóra var og er enn mjög listhneigð kona. Hún kenndi okkur að lesa og skilja ljóð, las mikið fyrir okkur og lagði áherslu á teikningu og myndmennt. Þetta fannst okkur gaman.

 

Pabbi Katrínar Þóru,  var ljóðskáld og ljóðaþýðandi. Ein hans þekktasta þýðing er "síðasta blómið" eftir James Thurber sem hann þýddi snilldarvel. Utangarðsmenn, með Ásbjörn Kristinsson, Bubba Morthens, fremstan meðal jafningja, gerðu síðan þýðinguna ódauðlega með samnefndu lagi af plötunni Geislavirkir. Mér fannst Bubbi Morthens æðislegur á þessum árum, mikið skáld. Ég vildi geta búið til ljóð og texta eins og hann.

Við krakkarnir vorum misjafnlega móttækileg fyrir tilraunum Katrínar Þóru að gera úr okkur skáld og listamenn. Ég held að ég geti sagt með nokkurri vissu að ekkert okkar hafi gerst listamaður að atvinnu, en tilraun  Katrínar Þóru var þakkarverð.

Það var alltaf fjör í kennslustofunni. Í bekknum voru margir snillingar. Sigurbjörn Sverrisson blaðamaður, Heimir Olgeirsson, iðnaðarmaður og atvinnurekandi, Sævar Már  lífskúnstner, hárskeri og sjómaður, Magnús Tumi Oddsson stjórnarmaður í KSÍ og matreiðslumaður, Páll Auðunn (Auddi), sjálfstætt starfandi lyfsali í Hveragerði, Eyþór Hansen, lagermaður og tónlistarmaður í hjáverkum, Matti ”langi” Guðmundsson atvinnuljósmyndari, Bergsteinn Aðalsteinsson blaðamaður og baráttumaður fyrir bættum kjörum barna í Zimbabwe í Ródesíu... Það yrði of langt mál að telja alla upp. Bekkjarsystkyni mín voru heilt yfir góðir krakkar. Mér þótti vænt um þau öll, þó ég hafi ekki alltaf sýnt væntumþykju mína með réttum hætti.

 

Katrín Þóra tilkynnti okkur einn daginn, kát í bragði, að nú skildi blásið til ljóðasamkeppni í bekknum. Allir ættu að setja saman ljóð af einhverju tagi. Verkefnið var að skrifa um það sem við hugsuðum um áður en við færum að sofa.

Það var mikil spenna í bekknum fyrir þessari keppni. Spenntastir voru samt undirritaður og Sigurbjörn Sverrisson, sem þá hafði látið töluvert af sér kveða á ritvellinum. Sigurbjörn hafði og hefur enn mikla hæfileika til að lýsa umhverfi sínu, mönnum og málefnum, í rituðu máli. Hann var talinn sigurstranglegastur. Páll Auðunn (Auddi) var ekki talinn eiga möguleika.

Arna, mamma Audda, var aldrei kölluð annað en Arna Parket af okkur drengjunum. Hún hafði splæst í nýtt parket um það leyti sem Auddi hóf nám í grunnskóla. Inn á það parket mátti enginn labba nema að undangenginni strangri skoðun á fótbúnaði og sokkum.

 

Við gerðum okkur það oft að leik að missa eitthvað matarkyns niður á parketið, bara til að sjá Örnu verða vonda. Sævar Már gekk lengst í því máli þegar hann missti, viljandi, fullan Cheerios disk á gólfið. Hann var dæmdur óvelkominn á heimili þeirra sómahjóna í tvö ár á eftir. Í refsingarskyni fyrir þennan dóm, lamdi Sævar Már og hrekkti, Audda reglulega, eða allt þangað til Audda auðnaðist að útvega sér aukavinnu við að bera út blöð. Fyrir peninginn sem hann vann sér inn keypti hann græna frostpinna og kókosbollur sem hann gaf Sævari. Í staðinn skildi Sævar hætta að lumbra á honum og hrekkja. Sem betur fer fyrir Audda, gekk það eftir. Auddi var Sævari alltaf þakklátur fyrir þennan samning, hann lærði þarna að "díla" Þeirra viðskipti áttu reyndar eftir að liggja saman á allt öðrum vettvangi síðar.

(Framhald kaflans á morgun, miðvikudaginn 15.des.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband