Eru Balti og Ómar Ragnars ekki bara fínir tappar?

sofi1.jpg- Sæll. Gerðir þú eitthvað um helgina? Eða var þetta bara rólegt hjá þér eins og alltaf?

- Rólegt og ekki rólegt, bara fín helgi. En hjá þér. Var líf og fjör?

- Já, þvílík stemming. Ég fór á barinn á föstudaginn, með félögunum, duttum hressilega í það. Geðveikt stuð. Ég man reyndar ekki alveg allt, en það var samt gaman. Ég var djöfull þunnur á laugardaginn en poppaði upp nokkra bjóra og lét mér líða vel í sófanum. Svo kom vinafólk okkar í mat um kvöldið og sat fram eftir nóttu. Það var bullandi stemming. Svo horfði ég á boltann á sunnudaginn, með strákunum. Arsenal-Everton. Fengum okkur tvo þrjá bjóra með, eins og menn gera. Ég át á KFC um kvöldið. Sofnaði snemma, alveg búinn á því.

(Smá hlátur, samt dálítið kreistur, svo kom spurning í vorkunnartón.)

En hjá þér ? Varstu bara heima í sófanum með konunni?

- Já, ég eyddi hluta helgarinnar í sófanum góða, eldaði reyndar góðan mat á föstudagskvöldið og svo horfðum við fjölskyldan saman á góða bíómynd á föstudagskvöldið, á undan  jólaskreyttum við húsið. Vöknuðum snemma á laugardaginn, fórum í sund og konan fór í ræktina. Svo heimsóttum við tengdó, fengum þar dýrindis kjötsúpu og næs. Svo var lagst í bakstur, piparkökur og smákökur, sem er árlegt fjör hjá krökkunum. Að því loknu skruppum við öll á veitingastað og fengum pizzu, kipptum mömmu með. Hún sat svo hjá krökkunum á meðan við hjónin fórum í bíó um kvöldið.

(Ég stoppa og bíð eftir viðbrögðum. Ekkert svar. Veit að spyrillinn hélt að svarið yrði styttra. Hann átti líklega von á einföldu Já-i við spurningu sinni.)

Á sunnudaginn fórum við svo til Reykjavíkur, drengurinn var að keppa í handboltamóti snemma um morguninn. Eftir mótið fórum við  í keilu og röltum við í Smáralindinni. Buðum síðan pabba í mat um kvöldið, lambalæri með öllu tilheyrandi. Sunnudagskvöldið var síðan tekið í sófanum í rólegheitum. Skrafað og málin rædd, vikan skipulögð. Einhvers staðar inn á milli tókst mér að ganga í hús og selja bækur, skrifa tvo kafla í nýju bókinni minni og undirbúa mig í nýja starfinu mínu sem fasteignsali. Skoðaði tvær eignir og skráði þær inn í fasteignasölukerfið, sem ég er að læra á. Konan, sem er í 150% vinnu þetta haustið, náði líka að fara yfir 50 próf og undirbúa kennsluna fyrir næstu viku. Þær geta verið líflegar sófahelgarnar með konunni. Ertu ekki sammála?

Ekkert svar. Þrúgandi þögn. Skilningsleysi. Svo kom svarið, hugsað sem vörn fyrir veikan málstað. Málstað þess sem hefur dæmt sig til að lifa í ramma fortíðar og stöðnunnar, í skjóli hins lævísa Bakkusar.

balti.jpg- Voðalega ertu eitthvað ofvirkur. Þú ert eins og Baltasar Kormákur og Ómar Ragnarsson.

Ætlaru kannski líka að fara að læra flug og leikstýra kvikmyndum?

Svo slitnaði samtalið.Ég reyndi að hringja til baka en það hringdi út.

Ég sat eftir og hugsaði málið.

Eru Balti og Ómar Ragnars ekki bara fínir tappar?  Eða er ég eitthvað að misskilja hlutina?

omar_1046416.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband