Skáld í dulargervi

Það rignir eins og helpipari.jpglt sé úr fötu. Á svona dögum er gott að vera rithöfundur. Á svona dögum er líka ágætt að vera málari, húsamálari. Það er reyndar alltaf fínt að vera húsamálari. Inni þegar rignir. Úti þegar sólin skín.

Það er ekki að ástæðulausu að málarastéttin er með þeim hressari af stétt iðnaðarmanna. Pípulagningamenn vinna á hinn bóginn við allt aðrar aðstæður en málarar, þeir eru dæmdir til að vinna innan um niðurföll og hvers kyns frárennsli.

Ég á einn vin sem vali sér pípulagnir sem aðalstarf. Hann er skemmtilegur strákur. Með kjaftinn fyrir neðan nefið. Og trúið mér þegar ég segi að enginn á Íslandi getur talað jafn mikið og hann. Hann talar og talar, í milljón hringi,og umræðuefnið fer út og suður, og inntak sögunnar fjarlægist eftir því sem orðunum fjölgar. Honum liggur gjarnan mikið á hjarta. Hann er ávallt með svör við öllum spurningum og nokkrar útgáfur af svörum ef menn óska, sem menn þurfa reyndar ekki að gera því hann skellir þeim framan í þig hvort sem þér líkar betur eða verr.

Ég hélt á dögunum að mér hafi tekist að gera hann kjaftstopp, en svo var þó ekki.

- Hvað var það á endanum sem hjálpaði þér við að ákveða að þú yrðir pípari? Eru það ofurlaunin? Eða bara vinalegt starfsumhverfið?

Píparinn málglaði svaraði engu. Klóraði sér í kollinum, gaf frá sér hljóð með því að setja tunguna örlítið á milli tannanna og soga loft í leiðinni inn um munninn og meðfram tungunni, við þetta myndast örlítið blásturshljóð, sem er á innsogi. Hljóð sem ekki er hægt að lýsa betur á prenti.

Hann leit síðan á mig og spurði:

- Heldur þú að það sé gaman að vera banani?

Ég viðurkenni að hann náði að gera mig hissa með þessari óvæntu spurningu, en ekki orðlausan því ég svaraði.

- Já, ég held að það sé ágætt, bara rólyndislíf. Líf sem á sitt upphaf og endi, engin dramatík. Reyndar er maður afklæddur áður en maður deyr og deyr allsber, sem er kannski ekki endilega spennandi.

Ég var mjög ánægður með mig. Fannst svarið sæma rithöfundi. Mér fannst ég vera meistari orðsins og það skildi sko enginn pípari gera mig kjaftstopp. Þessi sjálfumgleði varði þó ekki lengi. Píparinn var kominn í stuð.

- Það er líklega samt skárra að vera banani heldur en sígaretta. Því ef þú ert sígaretta þá er dauðdaginn skelfilegur.

Svo sótti hann sér sígarettu í vasann, kveikti sér í einni og bauð mér. Ég afþakkaði en beið spenntur eftir framhaldinu. Ég átti samt alls ekki von á þeim útskýringum sem biðu mín.

- Sko, ef þú ert sígaretta, þá kveikir fólk í hausnum á þér og sýgur svo á þér rassgatið, endar svo þessa meðferð á því að henda þér í götuna og traðka svo á leyfunum af þér.

Hann sogaði að sér reykinn, henti sígarettununni í götuna og drap í henni með fætinum. Svo leit Píparinn málglaði á mig, pírði augun og glotti. Sagði ekki meir. Gekk hröðum og öruggum skrefum að bifreið sinni og ók á brott.

Píparinn skildi mig eftir í tóminu. Ég var þungt hugsi. Kannski eru píparar skáld í dulargervi ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband