Hugmynd
4.12.2010 | 11:31
Ég sit heima. Börnin eru í skólanum. Á öruggum stað. Konan er í vinnunni, kennari á launum hjá ríkinu. Hún er líka á öruggum stað. Ég er í vinnuherberginu mínu. Ég sit í opnu rými, með bókahillu fyrir aftan mig. Sit við skrifborð og skrifa á tölvuna mína. Er að fæða hugmyndir.
Er ég á öruggum stað?
Það er ég ekki viss um. Hef aldrei verið viss þegar ég er annars vegar. Ég er nefnilega þeirri gæfu, eða ógæfu gæddur, eftir því hvernig á það er litið, að vilja ekki vinna undir stjórn annarra. Ég vil vera sjálfstæður og bera 100% ábyrgð á eigin afkomu. Ég skrifa bækur, gef þær út sjálfur og sel þær helst sjálfur. Þá hef ég öll spil á hendi. Það mætti leiða að því líkum að ég sé ekki á öruggum stað, en ég er á skemmtilegum stað. Ég er að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Ég fylgi hjartanu.
Þær hugmyndir sem ég er að fæða í dag snúast um heill og afkomu íslenskrar þjóðar, eins og svo oft þegar ég er ekki að skrifa skáldsögur eða öllu frekar sá í minn eigin akur, þá sái ég í akur þjóðarinnar. Öfugt við þá blábjána sem setið hafa við stjórnvölin hér á landi síðastiliðin 30 ár eða svo, hef ekki aldur né söguþekkingu til að fara lengra aftur í tímann, þá vinn ég mínar hugmyndir með þjóðarhga í huga, frekar en mína eigin.
Það er nú reyndar svo að hagur þjóðarinnar fer saman við mína hagi og barna minna. Það er augljós staðreynd að betri þjóðarhagur og manneskjulegra umhverfi eykur líkurnar á hamingjuríkara lífi barna minna og afkomenda. Ég get ekki ætlast til þess af þeim að þau hugsi eins og ég, hafi þá óbilandi trú að hver sé sinnar gæfu smiður. Kannski eru þau eins og mamma sín, vilja starfa og lifa í skjóli kerfisins, leggja sitt af mörkum með öðrum hætti heldur en faðir þeirra, vonandi. Því hvernig væri samfélagið ef allir væru eins og ég og Balthasar Kormákur, ofvirkir bissnessmenn með listagyðjuna í æðum sér. Vakna snemma, sofna seint, skrifa í svefni. Eins og ofvirkir og óþekkir krakkar á sterum. Nei, en allt er þetta gott í bland.
Gríski heimspekingurinn Sókrates leysti þessa gátu um jafnvegi hlutanna fyrir margt löngu.
Leiðin til hamingjunnar liggur um hinn gullna meðalveg.
Framsóknarflokkur Íslands reyndi af veikum mætti að afla sér atkvæða og vinsælda meðal Íslenskrar þjóðar, með því að reyna að fylgja meðalveginum, halda sig mitt á milli hægri og vinstri öfga, dansa á miðjunni. Þeir gleymdu því að miðjumenn þurfa sóknarmenn til að klára dæmið, og varnarmenn til að verjast áhlaupum. Fyrir utan svo aðra augljósa glæpi þessa ágæta stjórnmálaafls, eins og t.a.m. að vera á móti litasjónvarpinu, þegar sú innreið átti sér stað í kringum 1980. Þá reis Páll Pétursson, þáverandi alþingismaður framsóknarmanna upp á hinu háa alþingi og mótmælti þessum ósköpum, taldi svart/hvíta sjónvarpið vera nægjanlegt. Að slíkur maður skuli hafa komist til áhrifa hjá stjórnmálaafli, nægir eitt og sér til útskýringa á því hvers vegna þessi ágæti flokkur er nú í útrýmingarhættu. Þar skortir framsýni.
Ég er framsýnn. Ég tilheyri engu stjórnmálaafli. Ég tilheyri hópi hugsandi fólks sem vill bættan þjóðarhag. Ég er fyrst og fremst Íslendingur, mannvinur, en ekki flokksapparat, eins og Davíð Oddsson og Steingrímu Joð Sigfússon.
Ég vil bjóða upp á ókeypis flug til Íslands. Laða hingað ferðamenn til að eyða hér gjaldeyri. Frábær leið til þess að afla tekna fyrir þjóðarbúið. Það myndi kosta íslenska ríkið smámuni í samanburði við þær upphæðir sem kæmu til baka. Á endanum er þetta bara einföld hagfræði, hagfræði sem ég lærði af móðurafa mínum.
Ef gjaldeyristekjurnar sem koma inn í landið eru meiri en þær sem fara út úr landi, þá er þjóðarbúið að hagnast. Ef innstreymi peninga er meira en útstreymið, þá er afgangur. Þann afgang má nota til að byggja sjúkrahús, borga atvunnuleysisbætur, byggja vegi og íþróttamannvirki, tónlistarhallir, greiða listamönnum fyrir vinnu sína og andlegar fórnir sínar í þágu þjóðarbúsins. Þá eru líka peningar til að greiða meiri barnabætur, sérstaklega til barna Þorgerðar Katrínar og Bjarna Ben og þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. Þá verður líka afgangur til að lækka skatta.
Allar þær krónur sem verða til innanlands, fara í hringrás, haldast innan efnahagskerfis okkar. Allt bisnessvitið snýst um gjaldeyristekjur. Peningar inn, peningar út. Eins og einn ágætur stærðfræðikennari, í þorpinu heima sagði, þegar hann hafði kunngjört okkur krökkunum lausn stærðfræðidæmanna.
- Þetta er trikkið.
Hann var kallaður Óli trikk. Hann kunni trikkin. Ég lærði lítið í stærðfræði hjá Óla en hann opnaði augu mín fyrir því að alltaf væru til lausnir, einfaldar lausnir út úr því sem virtist, erfiður vandi.
Hvað haldið þið að fjögurra manna fjölskylda, sem flýgur frítt til Íslands, muni skilja eftir sig hér á landi?
Reiknaðu dæmið til enda og þá sérðu að þær krónur sem þurfti að eyða í að flytja þau hingað eru hjóm eitt í samanburði við þá tölu sem situr eftir. Auk þess sem þetta fólk, hefði aldrei að öðrum kosti komið hingað nema af því að það var frítt. Þau eru hrein viðbót í ferðamannaflóruna. Ef mér yrði boðið til Kanaríeyja, myndi ég fljúgja þangað strax og eyða ógrynni af peningum, bara í þakklætisskyni fyrir boðið.
Fólk mun gagnrýna þessa tillögu og segja: Það koma hingað bara nískupúkar.
Við ykkur vil ég segja þetta: Takið höfuðið út úr rassgatinu á ykkur. Látið ekki óttann við hið óþekkta, hið nýja, knýja ykkur til að hugsa heimskulega. Hugsið frekar: Hingað kemur, nýjungagjarnt og þakklátt fólk.
Þetta fólk talar síðan, vonandi, fallega um land og þjóð, sem verður til þess að vinir þeirra og kunningjar verða forvitnir og vilja koma hingað líka. Við gerum ferðamennina háða því að kom til landsins og eyða hér peningum.
Af hverju haldið þið að íslendingar flykkist til Kanaríeyja á hverju ári og hafa gert síðastliðin 40 ár? Það er af þvi að við höfum vanist því, það er komið inn í þjóðarsál okkar. Við erum alin upp við að Kanaríeyjar séu paradís á jörðu, öruggt skjól til afslöppunar, suðræn sólarparardís, þar sem allt ódýrt. Ferðamálafrömuðir þeirra ágætu eyja, lokkuðu okkur, þjóðina, þangað á sínum tíma með gylliboðum.
Síðan þá hefur íslenska þjóðin byggt með gjaldeyris sínum fjögur sjúkrahús á eyjunum og malbikað 13þús kílómetra af vegum, ásamt því að mennta ógrynnin öll á fávísum Afríkubúum sem halda að þeir séu Spánverjar, innfæddum, fólki sem í daglegu tali eru kallað Kanaríar.
Þetta var eingöngu gert með gjaldeyristekjum frá Íslendinum, sem eru ekki nema 300þús manna þjóð á norðurhjara veraldar, þjóð sem á Golfstraumnum, tilurð sína að þakka.(Ef þið hélduð eitthvað annað, þá þykir mér leitt að eyðileggja þá rómantík)
Vitið þið hvað búa margir í KÍNA?
Ég skil ekki af hverju menn eins og ég erum ekki í fullu starfi við að fæða hugmyndir fyrir fávísa viðskiptafræðinga og lögfræðinga sem stýra þjóðarskútu okkar.
Ég ætla að fá mér kaffisopa, expresso, þamba kaffið, skrúfa upp í blóðþrýstingnum, örva heilann. Áður fyrr deyfði ég hann með áfengi. Nú fær hann eingöngu örvandi stöff eins og vatn og kaffi, sér til mikillar ánægju.
Athugasemdir
Sæll, áhugavert að lesa þetta. Verð reglulegur gestur hér á síðunni. Gangi þér vel
Alvin (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 14:40
Flott framtak hjá þér minn kæri, ég myn fylgjast með þér hér ekki síður en á facebook eða í Trúðabókum :)
Kv, Bjarni Kr
Bjarni Kristinsson, 4.12.2010 kl. 15:28
Þakka ykkur fyrir Alvin og Bjarni.
Ég mun reyna að valda ykkur ekki vonbrigðum.
Sigurður Fannar Guðmundsson, 4.12.2010 kl. 18:16
Svei mér þá, ef þú ert ekki að verða jafn skýr og skemmtilegur, eins og hún móðir þin!
Heisi Fluffa.
Heiðar Jónsson (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.