Skemmtileg tilraun....

bokin_kapa_1047209.jpgÉg hef ákveðið að gera tilraun. Tilraun sem ég held að sé skemmtileg. Þannig er mál með vexti að ég skrifaði og gaf út í haust bók sem heitir TRÚÐUR-Metsölubók. Bók þessi hefur fengið góða dóma og viðbrögð fólks sem bókina hafa lesið hafa verið jákvæð og hvetjandi.

 Bókin fór aldrei í dreifingu á landsvísu, en hefur fengist hjá höfundi, og í Sunnlenska Bókakaffinu og Bónus á Selfossi. Einnig hefur bókinni verið dreift með pósti í gegnum sölu,- og kynningarvefinn www.metsolubok.is 

Bókin er enn fáanleg á ofangreindum stöðum en allar líkur eru þó á því, miðað við gang sölunnar, að upplagið klárist fyrir jól.

Ég hef ákveðið að gera smá tilraun, birta bókina í skömmtum á blogginu mínu. Ég ætla að birta á degi hverjum, nokkrar blaðsíður, eftir því sem efnistök leyfa. Gefa fólki tækifæri á að lesa bókina, rafrænt. 

Það er ekki endilega af góðmennsku einni saman sem ég geri þetta, því birtingin er liður í að kynna næstu bók, sem er hluti af þríleik um aðalkarakter bókarinnar, Guðmund Þór. Sú bók kemur út 1.apríl 2011 og verður fáanleg í öllum helstu bókaverslunum landsins og einnig hjá höfundi og útgefanda.

Ég vona að fólk hafi gaman að þessu uppátæki og fylgist með framgangi sögunnar hér á blogginu og kannski láti vita, ef því líkar við efnið, svo að fleiri megi njóta.

 

 Að þessu sögðu ber ég fyrst á borð formála höfundar.(Fyrsti kafli birtist svo á morgun 8.des)

 

Formáli Höfundar

Það er ekki til vitnis um gott sjálfstraust að skrifa formála að bókum sínum. Mig minnir að það hafi verið Flosi Ólafsson sem hafi skrifað í formála að bókinni sinni góðu ”Í Kvosinni” að formáli væri eins og fyrirfram útskýring á góðum brandara. Hann segir jafnframt í sínum formála að það séu einungis vondir rithöfundar sem útskýri bækur sínar í formálanum. Að þessu sögðu langar mig aðeins að útskýra bókina.

Bók þessi er skáldsaga. Guðmundur Þór, aðalpersóna bókarinnar er tilbúningur eins og nær allar persónur og leikendur þessa skáldverks. Guðmundur Þór leiðir okkur fram og til baka um æviskeið sitt. Hann rifjar upp minningarbrot úr æsku sinni og gefur okkur innsýn í líf sitt í dag. Ég get fúslega viðurkennt það að mér þykir vænt um Guðmund Þór. Leit hans að tilgangi lífsins er eitthvað sem er okkur mannfólkinu eðlislægt. Það er samt eitt atriði sem pirrar mig dálítið við hann Guðmund. Það er hversu upptekinn hann er af áfengi en það er hans böl ekki mitt.

 

Njótið vel

Sigurður Fannar Guðmundsson

 


Fé á fjalli

 

Fé er fallvalt og kannski ekki mjög skáldlegt að skrifa ljóð um peninga. Það er nú samt raunveruleikinn og hvað er skáldlegra en raunveruleikinn sjálfur. Hvað er íslenskara en sauðkindin ?

 

 

Fé á fjalli

 

Hátt ég stend á stalli.
Ég á feikn af fé - á fjalli.

Sauðina mína sendi til fjalla.
sæll í sinni kveð ég þá alla.
Á heiðunum háu þeir vaxa og dafna
í haust mun ég saman þeim safna.
Og þá verður gnægð af kjöti og ull
kosturinn mikill - í kistunni gull.
Landið er gjöfult á göfugum stalli
gott er að eiga fé sitt á fjalli.

Svo leituðu menn að sauðum mínum
síðla sumars á fákum fínum.
En á fjöllum var ekkert fé að sjá
fáeinar gæsir þar flugu hjá.
Á heiðinni háu var hrafnaþing
hoppuðu keikir allt í kring.
og kroppuðu augun úr lambi einu
engu þeir hlífðu - ekki neinu.

Hátt ég stóð - en sté - af stalli.
Ekkert er fé - á fjalli.

 


 


Draumalandið

Skrifa líkt og skrattinn sé á hælum mínum. Ég er að pæla í að gera samning við hann, líkt og Andri Snær Magnason gerði. Þá kannski gæti ég skrifað ljóð eins og þetta hér.

1.aprílandri-c-250x.jpg

Marsbúinn.

 

Þetta stórskemmtilega ljóð, eftir Andra Snæ varð til þess að sumu leyti að mig langaði til að verða skáld. Þegar ég las það þá áttaði ég mig á því hversu orðin eru mögnuð. Hvað er hægt að segja mikið með litlum texta. Andri kann það. Hann kann líka að skrifa bók um eiginlega ekkert og gera hana að einni vinsælustu bók sem skrifuð hefur verið á Íslandi. Bók sem er full af staðreyndum, lítið um skáldskap, bók sem fólki er sagt að það eigi að lesa, hópþrýstingsrugl, sem oft myndast á Íslandi. Svo eru allir sammála um að það bókin sé snilld. Jafvel þó hún sé ekkert annað en þokkalega unnið áróðursplagg.

 

Ég er þó ekki að hallmæla snilld Andra, eins og ég hef sagt áður þá finnst mér hann snillingur, dreg ekkert þar undan. Hann þarf bara að einbeita sér að því sem hann er bestur í, hætta að leika verðandi forseta Íslands, sá tími mun koma og þá kýs ég hann enda hlynntur því að skáld og hugsuðir stýri þjóðfélögunum frekar en lögfræðingar og hagfræðingar.

 

Ísland er að mörgu leyti Draumaland. Hér er gott að búa. Rennandi vatn í öllum húsum, bæði heitt og kalt. Stoðkerfi samfélagsins standa. Hér eru sjúkrahús og skólar. Hér er ástand vega og vegakerfa í góðu lagi. Samgöngur til og frá landinu eru stopular og traustar. Hér er mikið af náttúruauðlindum bæði á landi og í sjó. Hér á landi er menntunarstigið hátt, jafnrétti kynja er með því besta sem gerist í heiminum. Hér á landi eru allar aðstæður til að byggja upp fyrirmyndarsamfélag.

 

Hvað veldur því þá að slíkt samfélag þrífst ekki hér?

 

Ég get svarað þeirri spurningu. Það hefur allt með það að gera hvernig við nýtum okkur þær aðstæður sem við höfum. Það hefur með það að gera hvernig við spilum út þeim spilum sem við höfum á hendi. Það hefur síðast en ekki síst með það að gera hverja við veljum til að leiða okkur áfram.

 

Pólitíkin á Íslandi og sú úrkynjaða flokkastefna og hentistefnupólítik sem ráðið hefur hér ríkjum frá því landið fékk sjálfstæði, er ástæða þess að hér ríkir ekki meiri velmegun. Í litlu landi svo ríku af auðlindum og tækifærum á að vera mikið og mun hærra þjónustustig. Hér eiga tannlækningar og öll heilsugæsla að vera ókeypis. Hér á rafmagn að seljast á kostnaðarverði, hér eigum við að aka um á vetnisbílum, á okkar eigin vetni. Hér eru allar forsendur til þess að búa betur um hnútanna. Við sitjum á gríðarlega verðmætum vatnsforða, sem er lykilinn að viðsnúningi og ríkidæmi þessarar þjóðar.

 

Eina sem þarf er að hleypa að hugmyndaríkum einstaklingum, sem ekki eru mengaðir af pólitík. Sem ekki eru mengaðir af græðgi og eigin frama. Hér þarf að hreinsa til, kasta á öskuhauga fortíðarinnar pólitískum gapuxum sem hrópa í ræðustólum ókvæðisorð að hver öðrum. Upp til hópa einstaklingar sem hafa ekki einu sinni kjark til að standa á eigin fótum. Þiggja laun sín frá þriðja aðila og hafa gert alla ævina.

 

Tökum Ögmund Jónasson sem dæmi. Einföld spurning til þeirra sem finnst mikið til hans koma.

Hefur hann þurft að bera fjárhagslega ábyrgð á gerðum sínum frá því að hann fór út á vinnumarkaðinn? Hefur hann einhvern tímann greitt úr eigin vasa fyrir misgjörðir (hafi þær verið einhverjar) í þeim embættum sem hann hefur setið í ?

Nei. Það hefur hann ekki gert. Ekki frekar en aðrir þeir sem stýra þessu landi og hafa gert um áratugaskeið.

Hvað með Davíð Oddson? Margir vilja meina að hann einn geti leitt okkur út úr vandanum.

Hann er engu betri en neinn annar. Situr nú á friðarstóli og spilar á fiðlu á meðan Róm brennur. Hvar er snilli hans nú? Hvar er kjarkur hans og hugsjónir?

Ef hann er jafn snjall og af er látið, hvers vegna stígur hann þá ekki fram á sjónvarsviðið og kemur þjóðinni til bjargar?

 

Algjört rugl. Algjört þvaður og endalaus vonbrigði. Pólitík á ekki að ráða ferðinni hjá lítilli eyjaþjóð norður í Atlandshafi. Hér þurfa hundar heimsku og afturhaldsemi að víkja af velli. Tími skáldanna er kominn, líkt og þegar Ísland var þjóð á meðal þjóða á Sturlungaöld.

 

Ísland er land draumanna. Draumalandið.

 

Úr eyju í norðri mun framtíðarleiðtogi manskyns, fulltrúi nýrrar hugsunar, leiða þjóðir heims til betri tíma. Þar sem manngildin og raunveruleg verðmæti jarðarinnar skipta mestu máli.

 

Vatnið, gróðurinn og mannleg samlifun.

 

 

 


Eru Balti og Ómar Ragnars ekki bara fínir tappar?

sofi1.jpg- Sæll. Gerðir þú eitthvað um helgina? Eða var þetta bara rólegt hjá þér eins og alltaf?

- Rólegt og ekki rólegt, bara fín helgi. En hjá þér. Var líf og fjör?

- Já, þvílík stemming. Ég fór á barinn á föstudaginn, með félögunum, duttum hressilega í það. Geðveikt stuð. Ég man reyndar ekki alveg allt, en það var samt gaman. Ég var djöfull þunnur á laugardaginn en poppaði upp nokkra bjóra og lét mér líða vel í sófanum. Svo kom vinafólk okkar í mat um kvöldið og sat fram eftir nóttu. Það var bullandi stemming. Svo horfði ég á boltann á sunnudaginn, með strákunum. Arsenal-Everton. Fengum okkur tvo þrjá bjóra með, eins og menn gera. Ég át á KFC um kvöldið. Sofnaði snemma, alveg búinn á því.

(Smá hlátur, samt dálítið kreistur, svo kom spurning í vorkunnartón.)

En hjá þér ? Varstu bara heima í sófanum með konunni?

- Já, ég eyddi hluta helgarinnar í sófanum góða, eldaði reyndar góðan mat á föstudagskvöldið og svo horfðum við fjölskyldan saman á góða bíómynd á föstudagskvöldið, á undan  jólaskreyttum við húsið. Vöknuðum snemma á laugardaginn, fórum í sund og konan fór í ræktina. Svo heimsóttum við tengdó, fengum þar dýrindis kjötsúpu og næs. Svo var lagst í bakstur, piparkökur og smákökur, sem er árlegt fjör hjá krökkunum. Að því loknu skruppum við öll á veitingastað og fengum pizzu, kipptum mömmu með. Hún sat svo hjá krökkunum á meðan við hjónin fórum í bíó um kvöldið.

(Ég stoppa og bíð eftir viðbrögðum. Ekkert svar. Veit að spyrillinn hélt að svarið yrði styttra. Hann átti líklega von á einföldu Já-i við spurningu sinni.)

Á sunnudaginn fórum við svo til Reykjavíkur, drengurinn var að keppa í handboltamóti snemma um morguninn. Eftir mótið fórum við  í keilu og röltum við í Smáralindinni. Buðum síðan pabba í mat um kvöldið, lambalæri með öllu tilheyrandi. Sunnudagskvöldið var síðan tekið í sófanum í rólegheitum. Skrafað og málin rædd, vikan skipulögð. Einhvers staðar inn á milli tókst mér að ganga í hús og selja bækur, skrifa tvo kafla í nýju bókinni minni og undirbúa mig í nýja starfinu mínu sem fasteignsali. Skoðaði tvær eignir og skráði þær inn í fasteignasölukerfið, sem ég er að læra á. Konan, sem er í 150% vinnu þetta haustið, náði líka að fara yfir 50 próf og undirbúa kennsluna fyrir næstu viku. Þær geta verið líflegar sófahelgarnar með konunni. Ertu ekki sammála?

Ekkert svar. Þrúgandi þögn. Skilningsleysi. Svo kom svarið, hugsað sem vörn fyrir veikan málstað. Málstað þess sem hefur dæmt sig til að lifa í ramma fortíðar og stöðnunnar, í skjóli hins lævísa Bakkusar.

balti.jpg- Voðalega ertu eitthvað ofvirkur. Þú ert eins og Baltasar Kormákur og Ómar Ragnarsson.

Ætlaru kannski líka að fara að læra flug og leikstýra kvikmyndum?

Svo slitnaði samtalið.Ég reyndi að hringja til baka en það hringdi út.

Ég sat eftir og hugsaði málið.

Eru Balti og Ómar Ragnars ekki bara fínir tappar?  Eða er ég eitthvað að misskilja hlutina?

omar_1046416.jpg


Skáld í dulargervi

Það rignir eins og helpipari.jpglt sé úr fötu. Á svona dögum er gott að vera rithöfundur. Á svona dögum er líka ágætt að vera málari, húsamálari. Það er reyndar alltaf fínt að vera húsamálari. Inni þegar rignir. Úti þegar sólin skín.

Það er ekki að ástæðulausu að málarastéttin er með þeim hressari af stétt iðnaðarmanna. Pípulagningamenn vinna á hinn bóginn við allt aðrar aðstæður en málarar, þeir eru dæmdir til að vinna innan um niðurföll og hvers kyns frárennsli.

Ég á einn vin sem vali sér pípulagnir sem aðalstarf. Hann er skemmtilegur strákur. Með kjaftinn fyrir neðan nefið. Og trúið mér þegar ég segi að enginn á Íslandi getur talað jafn mikið og hann. Hann talar og talar, í milljón hringi,og umræðuefnið fer út og suður, og inntak sögunnar fjarlægist eftir því sem orðunum fjölgar. Honum liggur gjarnan mikið á hjarta. Hann er ávallt með svör við öllum spurningum og nokkrar útgáfur af svörum ef menn óska, sem menn þurfa reyndar ekki að gera því hann skellir þeim framan í þig hvort sem þér líkar betur eða verr.

Ég hélt á dögunum að mér hafi tekist að gera hann kjaftstopp, en svo var þó ekki.

- Hvað var það á endanum sem hjálpaði þér við að ákveða að þú yrðir pípari? Eru það ofurlaunin? Eða bara vinalegt starfsumhverfið?

Píparinn málglaði svaraði engu. Klóraði sér í kollinum, gaf frá sér hljóð með því að setja tunguna örlítið á milli tannanna og soga loft í leiðinni inn um munninn og meðfram tungunni, við þetta myndast örlítið blásturshljóð, sem er á innsogi. Hljóð sem ekki er hægt að lýsa betur á prenti.

Hann leit síðan á mig og spurði:

- Heldur þú að það sé gaman að vera banani?

Ég viðurkenni að hann náði að gera mig hissa með þessari óvæntu spurningu, en ekki orðlausan því ég svaraði.

- Já, ég held að það sé ágætt, bara rólyndislíf. Líf sem á sitt upphaf og endi, engin dramatík. Reyndar er maður afklæddur áður en maður deyr og deyr allsber, sem er kannski ekki endilega spennandi.

Ég var mjög ánægður með mig. Fannst svarið sæma rithöfundi. Mér fannst ég vera meistari orðsins og það skildi sko enginn pípari gera mig kjaftstopp. Þessi sjálfumgleði varði þó ekki lengi. Píparinn var kominn í stuð.

- Það er líklega samt skárra að vera banani heldur en sígaretta. Því ef þú ert sígaretta þá er dauðdaginn skelfilegur.

Svo sótti hann sér sígarettu í vasann, kveikti sér í einni og bauð mér. Ég afþakkaði en beið spenntur eftir framhaldinu. Ég átti samt alls ekki von á þeim útskýringum sem biðu mín.

- Sko, ef þú ert sígaretta, þá kveikir fólk í hausnum á þér og sýgur svo á þér rassgatið, endar svo þessa meðferð á því að henda þér í götuna og traðka svo á leyfunum af þér.

Hann sogaði að sér reykinn, henti sígarettununni í götuna og drap í henni með fætinum. Svo leit Píparinn málglaði á mig, pírði augun og glotti. Sagði ekki meir. Gekk hröðum og öruggum skrefum að bifreið sinni og ók á brott.

Píparinn skildi mig eftir í tóminu. Ég var þungt hugsi. Kannski eru píparar skáld í dulargervi ?


Hugmynd

aristoteles_busto.jpgÉg sit heima.  Börnin eru í skólanum. Á öruggum stað. Konan er í vinnunni, kennari á launum hjá ríkinu. Hún er líka á öruggum stað. Ég er í vinnuherberginu mínu.  Ég sit í opnu rými, með bókahillu fyrir aftan mig. Sit við skrifborð og skrifa á tölvuna mína. Er að fæða hugmyndir.

Er ég á öruggum stað?

Það er ég ekki viss um. Hef aldrei verið viss þegar ég er annars vegar. Ég er nefnilega þeirri gæfu, eða ógæfu gæddur, eftir því hvernig á það er litið, að vilja ekki vinna undir stjórn annarra. Ég vil vera sjálfstæður og bera 100% ábyrgð á eigin afkomu. Ég skrifa bækur, gef þær út sjálfur og sel þær helst sjálfur. Þá hef ég öll spil á hendi. Það mætti leiða að því líkum að ég sé ekki á öruggum stað, en ég er á skemmtilegum stað. Ég er að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Ég fylgi hjartanu.

Þær hugmyndir sem ég er að fæða í dag snúast um heill og afkomu íslenskrar þjóðar, eins og svo oft þegar ég er ekki að skrifa skáldsögur eða öllu frekar sá í minn eigin akur, þá sái ég í akur þjóðarinnar. Öfugt við þá blábjána sem setið hafa við stjórnvölin hér á landi síðastiliðin 30 ár eða svo, hef ekki aldur né söguþekkingu til að fara lengra aftur í tímann, þá vinn ég mínar hugmyndir með þjóðarhga í huga, frekar en mína eigin.

Það er nú reyndar svo að hagur þjóðarinnar fer saman við mína hagi og barna minna. Það er augljós staðreynd að betri þjóðarhagur og manneskjulegra umhverfi eykur líkurnar á hamingjuríkara lífi barna minna og afkomenda. Ég get ekki ætlast til þess af þeim að þau hugsi eins og ég, hafi þá óbilandi trú að hver sé sinnar gæfu smiður. Kannski eru þau eins og mamma sín, vilja starfa og lifa í skjóli kerfisins, leggja sitt af mörkum með öðrum hætti heldur en faðir þeirra, vonandi. Því hvernig væri samfélagið ef allir væru eins og ég og Balthasar Kormákur, ofvirkir bissnessmenn með listagyðjuna í æðum sér. Vakna snemma, sofna seint, skrifa í svefni. Eins og ofvirkir og óþekkir krakkar á sterum. Nei, en allt er þetta gott í bland.

Gríski heimspekingurinn Sókrates leysti þessa gátu um jafnvegi hlutanna fyrir margt löngu.

Leiðin til hamingjunnar liggur um hinn gullna meðalveg.

Framsóknarflokkur Íslands reyndi af veikum mætti að afla sér atkvæða og vinsælda meðal Íslenskrar þjóðar, með því að reyna að fylgja meðalveginum, halda sig mitt á milli hægri og vinstri öfga, dansa á miðjunni. Þeir gleymdu því að miðjumenn þurfa sóknarmenn til að klára dæmið, og varnarmenn til að verjast áhlaupum. Fyrir utan svo aðra augljósa glæpi þessa ágæta stjórnmálaafls, eins og t.a.m. að vera á móti litasjónvarpinu, þegar sú innreið átti sér stað í kringum 1980. Þá reis Páll Pétursson, þáverandi alþingismaður framsóknarmanna upp á hinu háa alþingi og mótmælti þessum ósköpum, taldi svart/hvíta sjónvarpið vera nægjanlegt. Að slíkur maður skuli hafa komist til áhrifa hjá stjórnmálaafli, nægir eitt og sér til útskýringa á því hvers vegna þessi ágæti flokkur er nú í útrýmingarhættu. Þar skortir framsýni.

Ég er framsýnn. Ég tilheyri engu stjórnmálaafli. Ég tilheyri hópi hugsandi fólks sem vill bættan þjóðarhag. Ég er fyrst og fremst Íslendingur, mannvinur, en ekki flokksapparat, eins og Davíð Oddsson og Steingrímu Joð Sigfússon.

Ég vil bjóða upp á ókeypis flug til Íslands. Laða hingað ferðamenn til að eyða hér gjaldeyri. Frábær leið til þess að afla tekna fyrir þjóðarbúið. Það myndi kosta íslenska ríkið smámuni í samanburði við þær upphæðir sem kæmu til baka. Á endanum er þetta bara einföld hagfræði, hagfræði sem ég lærði af móðurafa mínum.

Ef gjaldeyristekjurnar sem koma inn í landið eru meiri en þær sem fara út úr landi, þá er þjóðarbúið að hagnast. Ef innstreymi peninga er meira en útstreymið, þá er afgangur. Þann afgang má nota til að byggja sjúkrahús, borga atvunnuleysisbætur, byggja vegi og íþróttamannvirki, tónlistarhallir, greiða listamönnum fyrir vinnu sína og andlegar fórnir sínar í þágu þjóðarbúsins. Þá eru líka peningar til að greiða meiri barnabætur, sérstaklega til barna Þorgerðar Katrínar og Bjarna Ben og þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. Þá verður líka afgangur til að lækka skatta.

Allar þær krónur sem verða til innanlands, fara í hringrás, haldast innan efnahagskerfis okkar. Allt bisnessvitið snýst um gjaldeyristekjur. Peningar inn, peningar út. Eins og einn ágætur stærðfræðikennari, í þorpinu heima sagði, þegar hann hafði kunngjört okkur krökkunum lausn stærðfræðidæmanna.

- Þetta er trikkið.

Hann var kallaður Óli trikk. Hann kunni trikkin. Ég lærði lítið í stærðfræði hjá Óla en hann opnaði augu mín fyrir því að alltaf væru til lausnir, einfaldar lausnir út úr því sem virtist, erfiður vandi.

Hvað haldið þið að fjögurra manna fjölskylda, sem flýgur frítt til Íslands, muni skilja eftir sig hér á landi?

Reiknaðu dæmið til enda og þá sérðu að þær krónur sem þurfti að eyða í að flytja þau hingað eru hjóm eitt í samanburði við þá tölu sem situr eftir. Auk þess sem þetta fólk, hefði aldrei að öðrum kosti komið hingað nema af því að það var frítt. Þau eru hrein viðbót í ferðamannaflóruna. Ef mér yrði boðið til Kanaríeyja, myndi ég fljúgja þangað strax og eyða ógrynni af peningum, bara í þakklætisskyni fyrir boðið.

Fólk mun gagnrýna þessa tillögu og segja: Það koma hingað bara nískupúkar.

Við ykkur vil ég segja þetta: Takið höfuðið út úr rassgatinu á ykkur. Látið ekki óttann við hið óþekkta, hið nýja, knýja ykkur til að hugsa heimskulega. Hugsið frekar: Hingað kemur, nýjungagjarnt og þakklátt fólk.

Þetta fólk talar síðan, vonandi, fallega um land og þjóð, sem verður til þess að vinir þeirra og kunningjar verða forvitnir og vilja koma hingað líka. Við gerum ferðamennina háða því að kom til landsins og eyða hér peningum.

Af hverju haldið þið að íslendingar flykkist til Kanaríeyja á hverju ári og hafa gert síðastliðin 40 ár? Það er af þvi að við höfum vanist því, það er komið inn í þjóðarsál okkar. Við erum alin upp við að Kanaríeyjar séu paradís á jörðu, öruggt skjól til afslöppunar, suðræn sólarparardís, þar sem allt ódýrt. Ferðamálafrömuðir þeirra ágætu eyja, lokkuðu okkur, þjóðina, þangað á sínum tíma með gylliboðum.

Síðan þá hefur íslenska þjóðin byggt með gjaldeyris sínum fjögur sjúkrahús á eyjunum og malbikað 13þús kílómetra af vegum, ásamt því að mennta ógrynnin öll á fávísum Afríkubúum sem halda að þeir séu Spánverjar, innfæddum, fólki sem í daglegu tali eru kallað Kanaríar.

Þetta var eingöngu gert með gjaldeyristekjum frá Íslendinum, sem eru ekki nema 300þús manna þjóð á norðurhjara veraldar, þjóð sem á Golfstraumnum, tilurð sína að þakka.(Ef þið hélduð eitthvað annað, þá þykir mér leitt að eyðileggja þá rómantík)

Vitið þið hvað búa margir í KÍNA?

Ég skil ekki af hverju menn eins og ég erum ekki í fullu starfi við að fæða hugmyndir fyrir fávísa viðskiptafræðinga og lögfræðinga sem stýra þjóðarskútu okkar.

Ég ætla að fá mér kaffisopa, expresso, þamba kaffið, skrúfa upp í blóðþrýstingnum, örva heilann. Áður fyrr deyfði ég hann með áfengi. Nú fær hann eingöngu örvandi stöff eins og vatn og kaffi, sér til mikillar ánægju.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband