Skemmtileg tilraun....

bokin_kapa_1047209.jpgÉg hef ákveðið að gera tilraun. Tilraun sem ég held að sé skemmtileg. Þannig er mál með vexti að ég skrifaði og gaf út í haust bók sem heitir TRÚÐUR-Metsölubók. Bók þessi hefur fengið góða dóma og viðbrögð fólks sem bókina hafa lesið hafa verið jákvæð og hvetjandi.

 Bókin fór aldrei í dreifingu á landsvísu, en hefur fengist hjá höfundi, og í Sunnlenska Bókakaffinu og Bónus á Selfossi. Einnig hefur bókinni verið dreift með pósti í gegnum sölu,- og kynningarvefinn www.metsolubok.is 

Bókin er enn fáanleg á ofangreindum stöðum en allar líkur eru þó á því, miðað við gang sölunnar, að upplagið klárist fyrir jól.

Ég hef ákveðið að gera smá tilraun, birta bókina í skömmtum á blogginu mínu. Ég ætla að birta á degi hverjum, nokkrar blaðsíður, eftir því sem efnistök leyfa. Gefa fólki tækifæri á að lesa bókina, rafrænt. 

Það er ekki endilega af góðmennsku einni saman sem ég geri þetta, því birtingin er liður í að kynna næstu bók, sem er hluti af þríleik um aðalkarakter bókarinnar, Guðmund Þór. Sú bók kemur út 1.apríl 2011 og verður fáanleg í öllum helstu bókaverslunum landsins og einnig hjá höfundi og útgefanda.

Ég vona að fólk hafi gaman að þessu uppátæki og fylgist með framgangi sögunnar hér á blogginu og kannski láti vita, ef því líkar við efnið, svo að fleiri megi njóta.

 

 Að þessu sögðu ber ég fyrst á borð formála höfundar.(Fyrsti kafli birtist svo á morgun 8.des)

 

Formáli Höfundar

Það er ekki til vitnis um gott sjálfstraust að skrifa formála að bókum sínum. Mig minnir að það hafi verið Flosi Ólafsson sem hafi skrifað í formála að bókinni sinni góðu ”Í Kvosinni” að formáli væri eins og fyrirfram útskýring á góðum brandara. Hann segir jafnframt í sínum formála að það séu einungis vondir rithöfundar sem útskýri bækur sínar í formálanum. Að þessu sögðu langar mig aðeins að útskýra bókina.

Bók þessi er skáldsaga. Guðmundur Þór, aðalpersóna bókarinnar er tilbúningur eins og nær allar persónur og leikendur þessa skáldverks. Guðmundur Þór leiðir okkur fram og til baka um æviskeið sitt. Hann rifjar upp minningarbrot úr æsku sinni og gefur okkur innsýn í líf sitt í dag. Ég get fúslega viðurkennt það að mér þykir vænt um Guðmund Þór. Leit hans að tilgangi lífsins er eitthvað sem er okkur mannfólkinu eðlislægt. Það er samt eitt atriði sem pirrar mig dálítið við hann Guðmund. Það er hversu upptekinn hann er af áfengi en það er hans böl ekki mitt.

 

Njótið vel

Sigurður Fannar Guðmundsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband