Kafli 11 - Fermingin (seinni hluti)

Þannig æxlaðist það að staðfestingu trúar minnar var fagnað á helstu drykkjubúllu bæjarins. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort örlagadísirnar hafi verið að gera grín að mér. Fyrsti sopinn í kirkjunni, kökuveisla og kaffissamsæti á bæjarknæpunni. Ég held að ég sé eina barnið í bænum sem hef fagnað þessum merku tímamótum á þessum stað.

 

Niðurgrafinn knæpa, fordyri helvítis. Fyrir ofan mig Kaupfélagið og skrifstofur framsóknarmafíunnar á Suðurlandi.

Amma Nína var í Framsóknarflokknum en hún valdi ekki staðinn. Það gerðu pabbi og mamma. Systkini þeirra áttu og ráku knæpuna. Garðar Þór, bróðir pabba. Hrafn, bróðir mömmu, og Sæunn kona hans, systir pabba. Sæunn og Hrafn eru einmitt foreldrar sr. Guðrúnar, þeirrar sömu og gifti mig. Já vegir Guðs eru órannsakanlegir. Við fengum salinn frítt.

 

Veislan var lífleg. Það var mikið talað, hlegið og skrafað. Mamma hafði af mikilli útsjónarsemi náð að kaupa ósköpin öll af sígarettum og vindlum. Þetta var smyglvarningur. Smyglarinn var fraktsjómaður (hér nefndur Pétur) sem Þorbjörg móðursystir mín hafði átt vingott við. Sígaretturnar voru af þremur gerðum: Winston, Salem og Viceroy. Vindlarnir: London Docks. Sígarettum og vindlum var raðað upp í mjólkurglös og margir öskubakkar settir í kringum glösin.

Það var til siðs að reykja mikið og vel í veislum á þessum árum og þótti einkar heppilegt í þessari veislu þar sem hún fór fram á knæpu. Eftirtaldir drykkir voru í boði:

Kaffi, kók, 7up, Appelsín og Pilsner. Það var pabbi sem hafði lagt til að Pilsner yrði á boðstólum. Afar mínir báðir voru honum hjartanlega sammála um það.

 

Aftur að veislunni. Þarna var ég - miðja athyglinnar - sem mér leiddist ekki. Kyssti og heilsaði frændfólki af miklum móð. Mest þótti mér vænt um öll umslögin sem ég fékk.  Opnaði þau strax og merkti í bók, hvað ég fékk frá hverjum. Fullt af peningum. Svo fékk ég eina af mínu skrýtnu hugmyndum.

Fólkið spjallaði og reykti, Þorgerður Elín, var yfirmaður eldhússins, eldhúsmella, eins og mönnum þótti sniðugt að segja  í þá daga. Þorgerður var/er einhleyp og góðvinur fjölskyldunnar, hress og kát kona. Hún býr á Akureyri í dag, þar sem hún starfar í gleraugnaverslun. Þorgerður hringir stundum í mömmu til að fá fréttir úr þorpinu, hringir gjarnan eftir kvöldmat á föstudögum eða síðdegis á laugardögum. Fréttirnar sem mamma færir henni er Þorgerður löngu búin að frétta.

 

 Ég bauðst til þess að bæta sígarettum í glösin, fyrir Þorgerði, hún þáði það með þökkum. Ég fyllti alla vasa af Viceroy, Winston og Salem, mest var til af Viceroy.

Það verður að viðurkennast að hugmyndin var langsótt. Ég var þess fullviss, miðað við hversu áhugi fólks á sígarettunum var mikill, þá yrði mér ekki skotaskuld úr því að koma þeim sem afgangs yrðu í verð. Ég var duglegur að fara inn í eldhús og sannfæra Ellu um nauðsyn þess að fylla meira á - það væri mikið reykt.

Einbeiting mín var góð við þessa iðju, ég spenntist upp og það hlakkaði í mér. Þegar yfir lauk hafði ég falið í skókassa, á bak við sviðið, 15 pakka af sígarettum en enga vindla.

 

Veislan tókst vel. Allir fóru sælir og glaðir heim. Mamma hafði orð á því að ekki hafi veitt af öllum þessum sígarettum, þær hefðu hreinlega klárast. Pabbi var fúll yfir því að Pilsnerinn skyldi klárast. Pabbi gat verið alveg vitlaus í Pilsner á sunnudögum. Ég skildi það ekki þá, en geri það nú.

Viku eftir ferminguna var ég búinn að koma sígarettunum í verð. Kaupandinn var Haraldur heitinn Hafsteinsson, Halli Hafsteins. Hann keypti fimmtán pakka. Þrjá Winston, tvo Salem og tíu af Viceroy gerð, staðgreitt á nánast fullu verði. Halli sagðist ætla nota sígaretturnar til að gefa vinum sínum. Sem mér þótti vafasamt, því Halli átti enga vini. Mér var sama, ég fékk að fullu greitt og það í reiðufé.

 

Halli var ekki allra. Hann seldi unglingum landa og þótti dularfullur í háttum. Hlutskipti Halla varð dapurlegt. Hann lét lífið við Hveravelli 30. jan 2007, hann varð úti. Skömmu áður hafði hann ruglast í kollinum, að talið var. Hann sá þann kost vænstan að hringsnúast til að komast leiðar sinnar. Halli átti sér fáa meðfylgjendur í þeim verknaði, hann snerist um sjálfan sig, einn síns liðs. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Viku eftir viðskiptin sat litla fjölskyldan við hádegisborðið. Mamma bar á borð, fiskbúðing, steiktann á pönnu, framreitt með soðnum kartöflum og tómatsósu.

Úr hátölurum útvarpsins bárust fréttir. Það var Ólafur Sigurðsson, bróðir sr. Sigurðar, sem nýverið hafði fermt mig, sem las fréttirnar. 

 "Rannsóknarlögregla ríkisins lagði hald á 50 lítra af eimuðum landa í vikunni. Landinn og tæki til fullvinnslu hans ásamt 100 lítrum af gambra fundust í bílskúr í ónefndum bæ úti á landi. Í sömu húsleit var einnig lagt hald á sígarettur, sem taldar eru vera smyglvara."

 

Ég sat og aldrei þessu vant - þagði.

Pabbi leit undarlega á mömmu og spurði.

 "Voru einhverjir fleiri sem keyptu sígarettur af Pétri ? "

"Guð minn góður" sagði mamma.

"Ég þarf að hringja í Tobbu systur."

Fréttaþulurinn lauk fréttinni á eftirtöldum orðum:

"Sígaretturnar sem fundust voru að hluta til af Viceroy-gerð, en þær hafa ekki verið fáanlegar um nokkurt skeið í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins."

 

Þannig atvikaðist þetta. Ég fermdist, staðfesti trú mína, drakk fyrsta áfengissopann, og tók þátt í að koma alþjóðlegri smyglvöru í verð. Fékk hugmyndina í syndabæli, knæpu í eigu fjölskyldunnar. Það mætti af þessu ætla að ég hafi verið hluti af ítalskri mafíufjölskyldu, en svo var ekki. Mín fjölskylda var að mestu heiðarleg, fyrir utan mig, mömmu og Tobbu frænku. Við vorum meðsek í smygli og ég rétt nýfermdur.

Já vegir Guðs eru órannsakanlegir, svo ekki sé meira sagt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 23.12.2010 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband