Kafli 1 og 2 úr skáldsögunni "Trúður"

Forleikur að bók 

“Þeir bönnuðu mér að drekka vín á Vogi,” sagði ókunnugur maður.

Ég leit á hann og hugsaði með mér að hann hlyti að vera eitthvað ringlaður í kollinum. Hann horfði beint á mig, næstum því í gegnum mig og hélt áfram.

“Það hentaði mér bara alls ekki að drekka vín.”

Ég þekkti manninn ekkert, mér hafði bara orðið á að tylla mér í návist hans. Eftir vandræðalega þögn ákvað ég að taka undir með manninum, enda vorkenndi ég honum, þar sem hann sat einn síns liðs, umkomulaus á bekk, að  bíða eftir rútu.

 “Já,” sagði ég. Fannst eins og þyrfti að segja meira. Lét vaða.

 “Það getur verið vont að drekka mikið vín, sérstaklega daginn eftir.”

Hann leit á mig, færði sig aðeins nær, allt því óþægilega nálægt, hallaði höfðinu á áttina til mín og hvíslaði.

“Veistu, ég fékk mér aldrei vín daginn eftir en átti það til að fá mér daginn áður.”

 

Svona byrjar þessi bók. Mín fyrsta bók. Bókin er blanda af hugrenningum mínum, endurminningum og frásögnum, bæði úr fortíð og nútíð. Þessi skrif eru afkvæmi hugsana minna. Hugsana sem í reynd eru ekkert annað en samfélagsspegill. Myndir sem berast frá augum mínum og inn í heilann, út í hendur mínar og á þetta blað, þennan skjá.

Heili minn er svampur sem móttekur upplifun mína. Þannig legg ég útfrá því sem ég sé og upplifi, dreg ályktanir og legg að líkum. Sumt er miður gáfulegt, eins og gengur, enda er ég alls ekki gáfaður maður. Hef oftar verið kallaður fífl en snillingur. Ég hef hins vegar gaman að því að skrifa, skálda. Er þetta þá skáldsaga ?

Nei, en þetta gæti verið skáldsaga. Það er svo stutt á milli sannleika og lygi, skáldskapar og raunveruleika, erfitt að greina hvenær eitt tekur við af öðru.

 

Það kann að vera að einhver hafi heyrt eða telji sig þekkja til einhverra þeirra frásagna sem birtast á prenti þessu, en til að fyrirbyggja allan miskilning þá er þetta nú mest allt saman lygi. Það sem er ekki logið er löngu fyrnt, nema sagan af ráðherranum sem vaknaði í vitlausu rúmi með ókunna konu sér við hlið. Ég mun koma að því síðar. Get þó uppljóstrað því strax að ráðherrann var í nærbuxum, einum fata.

 

 


            Helvítið hann Hermann Grutzen 

 

Ég heiti Guðmundur, kallaður því frumlega viðurnefni, Gummi. Ég heiti Þór að millinafni. Móðir mín, kallar mig alltaf  Guðmundur Þór. Pabbi kallar mig Gummi minn. Guðmundur Þór er prýðilegt nafn, svona venjulegt íslenskt nafn. Mér hefur lærst að líka við þetta nafn. Ég verð fertugur í haust.

Ég ólst upp í þorpi úti á landi, Suðurlandi, sleit þar barnsskónum. Bærinn var þá vinalegt þorp. Í þorpinu þekktu allir alla og ég var þekktur sem ærslafulli sonur foreldra minna, Margrétar Símonardóttur og Sigurðar Guðmundssonar. Í þá daga voru börn gjarnan kennd við foreldra sína, afa og ömmur. Einhverra hluta vegna var ég aldrei kenndur við ömmur mínar, sem þó báðar voru miklar kjarnakonur.  Áttu báðar fimm börn sem öll komust á legg og bjuggu öll og búa að ég best veit enn, í þorpinu. Frændgarður minn var um og yfir og allt í kring.

 

Vini átti ég marga og æskan var öll sem eitt samfellt ævintýr. Utan þegar Hermann múrari Grutzen, hræddi mig svo mjög að ég meig í buxurnar. Hann átti reyndar allan rétt á því að hræða mig, ég hafði ásamt vinum mínum verið að skjóta úr heimagerðum túttubyssum á stofugluggann hjá Hermanni.

Þetta var að hausti 1981. Það haust var gott, veður voru mild, krummaberin blómstruðu snemma og féllu seint. Við strákarnir skutum mörgum berjum úr byssum okkar þetta haust. Stofuglugginn hans Hemma múrara varð bara svo  óheppilega á  vegi okkar. Ég var líka óheppinn að vera sá sem Hemmi valdi úr til að hlaupa uppi.

Hann spratt upp úr limgerðinu heima hjá sér, Heggstaðavíðir, þéttur runni og því engin leið að sjá hann í haustmyrkrinu.  Ég fylltist skelfingu við að sjá Hermann spretta undan runnanum, hjartað barðist og ég hljóp sem fætur toguðu niður Kóngsveginn, á undan mér var æskuvinur, Sævar Már, sem átti heima neðar í götunni. Ég elti Sævar. Hermann elti okkur báða. Sævar hvarf innum dyrnar á húsi sínu og skellti á eftir sér, á nefið á mér og Hemmi nálgaðist hratt. Ég tók á rás og tók stefnuna aftur fyrir húsið, sá lítið í myrkrinu. Heyrði Hermann kalla fyrir aftan mig

„Strákskratti, þú kemst ekki langt“

 

Ég sá ekki handa minna skil, leit aftur fyrir mig, til að gá hvort Hemmi væri á hælum mér, en gáði ekki að sjálfum mér því fyrir framan mig var mikil gaddavírsgirðing. Ég hljóp beint á girðinguna og sat kolfastur, negldur á gaddavír.  Hermann múrari Grutzen náði mér. Hann tók þéttingsfast í öxlina á mér svo ég losnaði. Hjartað hefur líklega verið við það að setja Íslandsmet í hraðslætti í kyrrstöðu, ég viðurkenni að hræðslan var yfirþyrmandi. Ég fann þegar heitt hlandið byrjaði að leka niður lærin á mér. Ég var svo skelfingu lostinn að það losnaði um allt. Ég meig í mig af hræðslu.

 

Hermann gerði mér ekkert. Hann sleppti takinu og gekk á braut, hvarf í myrkrið og ég stóð einn, rifinn eftir gaddavír. Hlandblautur í myrkrinu. Í minningunni er eins og ég hafi séð Hemma glotta. Hann vissi vel að þessi refsing var mér næg, sá skömmustuglampann í tárvotum augunum.

Ég skaut aldrei aftur af túttubyssu í glugga fólks og forðaðist lengi vel að ganga í nálægð við hús Hemma Grutz, þó það væri á leið minni í skólann. Sævar, sá sem skellti hurðinni á nefið á mér, bjargaði sjálfum sér. Hann átti eftir að sanna það margsinnis síðar að hann var duglegur að bjarga sér.

 

Kannski var það einmitt þetta kvöld sem ég lærði eina mikilvægustu lexíu lífs míns. Hún er sú að menn verða að vera úrræðagóðir og framkvæma það sem þeir hugsa, ekki hika og velkjast í vafa. Sævar tók stefnuna heim til sín, vissi hvert hann var að fara. Ég var stefnulaus og áttavilltur. Þess vegna varð ég fórnarlambið þetta kvöld.

(Framhald 10.des....)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband